Hege Haukeland Liadal, fyrrum þingmaður norska Verkamannaflokksins, var í dag dæmd í sjö mánaða fangelsi vegna falsaðra ferðareikninga. Alls fékk hún ferðakostnað að andvirði 1,8 milljóna íslenskra króna endurgreiddan frá norska Stórþinginu á tímabilinu 2016 til 2018. Þetta kemur fram í fréttum NRK og VG um málið.
Aftenposten afhjúpaði fjárdrátt Liadal fyrir rúmum tveimur árum síðan, en þingmaðurinn viðurkenndi þá að hún hafði fengið endurgreiddan pening fyrir ferðir sem hún hafði aldrei farið. Í kjölfarið tilkynnti norska Stórþingið málið til lögreglu, sem fór svo í gegnum 700 reikninga sem hún hafði lagt fram.
Af þessum reikningum reyndist 61 þeirra vera falsaðir, samkvæmt dómi Þingréttarins í Osló, sem var kveðinn upp í dag. Þar voru meðal annars reikningar fyrir ferðir á milli heimabæjar hennar í Haugesund og Oslóar sem vegalengdin á milli staðanna tveggja var ofáætluð.
Þar að auki greiddi þingið fyrir ferðir sem Liadal fór ekki og aðrar ferðir sem voru ótengdar störfum hennar sem þingmaður. Samkvæmt NRK er þingmanninum gert að greiða tæpar tvær milljónir íslenskra króna í bæði sekt og málskostnað, til viðbótar við fangelsisvistina.
Liadal viðurkennir að hafa vanrækt störf sín sem þingmaður með að falsa reikningana sína, en segir þó að falsanirnar hafi ekki verið gerðar af ásettu ráði til að bæta eigin fjárhagsstöðu. Hún segir líka að síðustu ár hafi verið henni þungbær, þar sem málið hennar hefur verið til rannsóknar. „Ég segi ekki að mér sé létt í dag, en ég geng héðan bein í baki,“ bætir hún við.