Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri, segir Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafa orðið uppvís að hreinni pólitískri spillingu með því að veita Orku Energy fyrirgreiðslu þegar fyrir lá að stjórnarformaður þess félags hafi leyst úr persónulegum fjárhagsvanda ráðherrans. „Sú framganga gæti raunar tilheyrt dæmasafni í handbók um pólitískt siðleysi. Ráðherra getur ekki notað stöðu sína sem slíkur til að greiða fyrir viðskiptahagsmunum einstaklings eða fyrirtækis sem skömmu áður hefur rétt honum fjárhagslega, persónulega, hjálparhönd. Þetta hlýtur að vera öllum ljóst, jafnvel á Íslandi. Á Vesturlöndum víkur slíkur ráðherra,“ segir Páll í grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun.
Páll hætti sem útvarpsstjóri nokkrum mánuðum eftir að Illugi varð mennta- og menningarmálaráðherra, en ráðuneyti hans fer með málefni RÚV. Ástæðan var sú að ákveðið hafði verið að auglýsa stöðu útvarpsstjóra lausa til umsóknar.
Stjórnarformaðurinn keypti íbúð ráðherrans
Illugi sagði frá því fyrir um tíu dögum síðan að hann hafi selt íbúð sína í Vesturbæ Reykjavíkur til Hauks Harðarssonar, eins eiganda og stjórnarformanns Orku Energy, fyrir 53,5 milljónir króna árið 2013 og að ráðherrann leigi hana til baka á 230 þúsund krónur á mánuði, án hita og rafmagns. Leigusamningur sem hann gerði við Hauk var til tveggja ára með vali á framlengingu. Ástæða þessa voru fjárhagsvandræði sem ráðherrann hafði ratað í vegna gjaldþrots fyrirtækisins Sero og tekjuleysi á meðan að hann vék af þingi vegna rannsóknar á sjóði 9, peningamarkaðssjóði Glitnis þar sem Illugi var stjórnarmaður fyrir hrun.
Vikurnar áður hafði Illugi legið undir gagnrýni vegna þess að fimm fulltrúar Orku Energy voru með ráðherranum í opinberri ferð sem hann fór til Kína í mars. Einn þeirra var Haukur Harðarson, stjórnarformaður Orku Energy. Á öðrum degi heimsóknar sinnar, þann 22. mars, kynnti hann sér jarðvarmaverkefni í Xionxian héraði, sem unnin eru af SGEG, sem Orka Energy China á 49 prósent hlut í. Þann 25. mars hitti Illugi Fu Chengyu, stjórnarformann Sinopec. Samkvæmt dagskrá ferðar ráðherrans, sem Hringbraut hefur birt opinberlega, tóku fimm aðilar utan Illuga þátt í fundinum með Fu Chengyu. Þrír þeirra voru íslenskir embættismenn. Hinir tveir voru frá Orku Energy. Annar þeirra var Haukur Harðarson.
Í desember 2013 var Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, viðstaddur þegar Orka Energy skrifaði undir samstarfssamning við kínverska héraðið Xianyang og Sinopec Star Petroleum um þróun á jarðvarmanýtingu og frekari útþennslu á hitunarkerfum í Xianyang. Undirritun samningsins fór fram á Íslandi. Fyrir hönd Orku Energy undirritaði Haukur Harðarson, stjórnarformaður félagsins, samkomulagið. Mynd: Orkaenergy.com
Í desember 2013 var Illugi viðstaddur þegar Orka Energy skrifaði undir samstarfssamning við kínverska héraðið Xianyang og Sinopec Star Petroleum um þróun á jarðvarmanýtingu og frekari útþennslu á hitunarkerfum í Xianyang. Undirritun samningsins fór fram á Íslandi. Fyrir hönd Orku Energy undirritaði Haukur Harðarson, stjórnarformaður félagsins, samkomulagið.
Ástæða þess að þetta hafði verið gagnrýnt var sú að Illugi starfaði sem ráðgjafi fyrir Orku Energy á árinu 2011, meðan hann var utan þings. Það liðu 20 dagar frá því að fjölmiðlar hófu að spyrja ráðherrann út í tengsl hans við Orku Energy þar til að hann opinberaði að Haukur hefði keypt íbúð hans. Það gerði Illugi í fréttum RÚV 26. apríl síðastliðinn að eigin frumkvæði. Blaðamaður Stundarinnar hafði þá sent Illuga fyrirspurn um sama mál sem hann hafði ekki svarað.
Illugi hefur meðal annars bent á að ýmsir aðrir ráðherrar hafi verið viðstaddir fundi Orku Energy erlendis og hjálpað til við að greiða götu félagsins. Enginn annar ráðherra hefur hins vegar starfað fyrir fyrirtækið eða hlotið fjárhagslega fyrirgreiðslu frá eiganda þess.
Kjarninn fjallaði ítarlega um Orku Energy í fréttaskýringu sem birtist í lok apríl.
Hinir fengu ekkert í staðinn
Páll segir í grein sinni að allt annað en sú staðreynd að ráðherrann hafi notað stöðu sína sem ráðherra til að greiða fyrir viðskiptahagsmunum einstaklings eða fyrirtækis sem skömmu áður hefur rétt honum fjárhagslega, persónulega, hjálparhönd sé aukaatriði og utan meginefni málsins. „Eftir stendur hin pólitíska spilling ein og hrein. Fráleitust er staðhæfingin um að eldri atbeini annarra ráðherra fyrir þetta sama fyrirtæki sé sama eðlis. Það er hann ekki. Í hann vantar andlagið; þeir ráðherrar fengu ekkert í staðinn, eftir því sem best er vitað. Í því felst eðlismunurinn. Ráðherra sem hefur gert sig beran að ofangreindu ætti að sýna þjóðinni - og flokknum sínum - þá kurteisi að segja sig frá ráðherradómi og þingmennsku.“