Gunnar Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar, hefur verið skipaður formaður framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í innanhúsíþróttum. Ásamt Gunnari sitja í nefndinni Jón Viðar Guðjónsson og Þórey Edda Elísdóttir, sem fulltrúar ríkisins, og Ólöf Örvarsdottir og Ómar Einarsson sem fulltrúar Reykjavíkurborgar. Ráðinn verður starfsmaður sem vinnur með framkvæmdanefndinni.
Framkvæmdanefndin hóf störf í dag og stefnt er að því að framkvæmdum við þjóðarhöllina verði lokið fyrir árslok 2025. Hlutverk nefndarinnar verður að leiða vinnu vegna hönnunar, útboðs og hvernig staðið verður að fjármögnun þjóðarhallar og undirbúa ákvörðun um útfærslu og rekstrarform. Þá á hún að útbúa tímasetta framkvæmdaráætlun um uppbyggingu hennar.
Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu mennta- og barnamálaráðuneytisins, sem fer með málefni íþrótta í ríkisstjórninni, og Reykjavíkurborgar sem birt var í dag.
Tekist á í aðdraganda kosninga
Málefni þjóðarhallar urðu heitt pólitískt álitaefni í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga. Mikill þrýstingur skapaðist annars vegar frá hópi íbúa í Laugardal þar sem innanhúsaðstaða til íþróttaiðkunar fyrir hverfisfélögin Þrótt og Ármann hefur verið með öllu ólíðandi áratugum saman, og hins vegar frá handbolta- og körfuboltahreyfingunni þar sem það stefndi í að íslensku landsliðin í greininum gætu ekki spilað landsleiki á heimavelli vegna þess að gamla Laugardalshöllinn uppfyllir ekki nútímaskilyrði til þess.
Viljayfirlýsing undirrituð í maí
Þann 6. maí, nokkrum vikum fyrir kosningarnar, undirrituðu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum.
Stefnt yrði að því að framkvæmdum ljúki árið 2025 og kostnaðarskipting milli ríkis og borgar átti að taka mið af nýtingu mannvirkisins. Það þýðir að ríkið borgar fyrir þann hluta sem snýr að þörfum sérsambanda og alþjóðlegra krafna til keppnisaðstöðu landsliða og Reykjavíkurborg þann hluta sem snýr að þörfum Þróttar og Ármann annars vegar og íþróttakennslu skóla í Laugardalnum hins vegar.
Til stendur að byggja höllina á svæði sem liggur milli Laugardalshallar og skrifstofumannvirkja Íþróttasambands Íslands, og að Suðurlandsbraut.
Félögin fá sex velli í stað fjögurra
Á opnum íbúafundi í Laugarnesskóla 2. mars síðastliðinn ræddi Dagur ítarlega um aðstöðumál íþróttafélaganna í hverfinu. Þar sagði hann: „Ég veit að sumir hafa verið að pirra sig á því að það hafi verið að blanda þjóðarleikvöngum inn í þetta og ég skil það að vissu leyti. En ég hef haldið því fram, bæði þegar ég ræði við forystu Þróttar og Ármann og við ykkur hér að það geta verið ótvíræð tækifæri í því ef að ríkið loksins skuldbindur sig á þjóðarleikvang og gerir það strax.“
Dagur sagði að gamla Laugardalshöllin, sem hefur ekki verið ó notkun vegna skemmda í tvö ár, verði tilbúin til notkunar 15. ágúst næstkomandi. Kosturinn við þjóðarhöll umfram sérstakt íþróttahús fyrir Þrótt og Ármann, sem borgin hafi tekið tvo milljarða króna frá til að byggj væri sá að gólfflötur í nýrri þjóðarhöll yrði slíkur að hann rúmi fjóra fulla keppnisvelli í handbolta. Þegar þeim yrði bætt við þá tvo velli sem eru í Laugardalshöll gæti þjóðarhallarlausnin skilað iðkendum í Laugardal alls sex æfingavöllum í fullri stærð, sem þyrfti að deila með landsliðum þegar þannig bæri undir.
Nýtt íþróttahús á bílastæðinu við hlið Þróttaheimilisins myndi skila tveimur nýjum völlum í fullri stærð og því var ávinningurinn að þjóðarhallarleiðirnir, mjög einfaldlega, fleiri vellir. Meira pláss.
Skref í átt að nýrri þjóðarhöll
Ásmundur Einar Daðason segir í tilkynningunni í dag að með stofnun framkvæmdarnefndarinnar færist þjóðin skrefi nær því að hefja framkvæmdir á nýrri þjóðarhöll. „Ég tel að við séum með öflugan hóp fagfólks sem eigi eftir að skila góðu verki.“
Haft er eftir Degi á sama stað að það sé mjög mikilvægt að koma undirbúningi þjóðarhallar af stað. „Henni er ekki bara ætlað að stórbæta umgjörð landsliða og leikja og vera fjölnota hús fyrir þjóðina. Megintilgangurinn með aðkomu borgarinnar að verkefninu er að auka og stórbæta aðstöðu til æfinga og keppni fyrir börn og unglinga í Laugardal. Þróttur og Ármann og skólarnir í hverfinu verða eftir þetta með fyrsta flokks aðstöðu.“