Fyrrverandi kærasta aðstoðarflugmannsins Andreas Lubitz, segir hann hafa glímt við geðræn vandamál, en þýska dagblaðið Bild birti umfjöllun í dag, þar sem rætt er við hana undir nafnleynd. Lubitz flaug flugvélv Germanwings viljandi á frönsku alpanna með þeim afleiðingum að allir um borð létu lífið, 150 manns.
Í umfjölluninni lýsir hún Lubitz þannig, að hann hafi vaknað um miðjar nætur, öskrandi, og einnig skipt skapi leiftursnöggt og tekið upp á hlutum sem augljóslega voru ekki eðlilegir. Inn á milli hafa hann síðan verið ósköp venjulegur og vingjarnlegur.
Þannig hafi hann í eitt skipti læst sig inn á klósetti í nokkurn tíma eftir að hafa æst sjálfan sig upp í rifrildi.
Konan, sem starfar sem flugfreyja, átti í sambandi við manninn í fimm mánuði áður en hún sleit sambandi við hann. „Ég hætti með honum því það varð alltaf augljósara og augljósara að hann glímdi við vandamál,“ segir í umfjöllun Bild.
Lufthansa, móðurfélag Germanwings, ákvað í gær að greiða aðstandendum þeirra sem létust 50 þúsund evrur, um 7,5 milljón króna, á hvern farþega. Rannsóknin á tildrögum þess að Lubitz flaug vélinn inn í frönsku alpanna stendur enn yfir.