„Í raun hafa Héraðsvötnin verið eitt sterkasta flagg Vinstri-grænna og annarra náttúruverndarsinna í náttúruverndarmálum,“ segir Jón Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. „Vernd jökulsánna í Skagafirði og annarra dýrmætra náttúruvætta landsins var eitt af þeim mála¬sviðum sem Vg var stofnað um í upphafi.“
Í meðförum verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar var verndargildi vatnasvæða Héraðsvatna metið eitt það mesta á landinu og lagði hún til að virkjanakostir sem þar voru fyrirhugaðir færu í verndarflokk áætlunarinnar. Í þeim flokki eru þeir í þingsályktunartillögu sem lögð hefur ítrekað verið fram á Alþingi frá árinu 2016 en eru færðir í biðflokk samkvæmt breytingatillögum meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar sem skilaði áliti sínu í síðustu viku. Greidd verða atkvæði um málið á Alþingi í dag, á síðasta degi þingsins.
Í grein sem Jón ritar í Morgunblaðið í dag, „með djúpri hryggð í hjarta“ í „nafni baráttunnar fyrir friðun Jökulsánna“ eins og hann orðar það, rifjar hann upp að það hafi verið öflugur þingmannahópur, m.a. með núverandi forsætisráðherra innanborðs, sem flutti ítrekað tillögur um friðun Jökulsánna í Skagafirði. „Það kemur því sorglega á óvart að nú skuli ríkisstjórn undir forystu VG hafa kúvent í náttúruverndarmálum og sett friðun Jökulsánna í Skagafirði í uppnám. Faðmlög og dýrar yfirlýsingar áttu sér ekki mikla innistæðu. Tillagan sem nú er verið að keyra í gegnum alþingi þessa dagana um svokallaða rammaáætlun er döpur.“
Tillaga meirihlutans um að fella Héraðsvötnin úr verndarflokki og flytja í biðflokk „til frekari virkjunarundirbúnings“ gangi þvert á grundvallarstefnu VG og „digrar yfirlýsingar“ og áratuga baráttu. „Fleiri dýrar náttúruperlur eru undir í landinu sem héldu sig vera hólpnar.
Verndunin margítrekuð í samþykktum VG
Jón rifjar ennfremur upp að verndun Jökulsánna hafi verið margítrekuð í landssamþykktum VG og staðfest m.a. með þingsályktun um friðlýsingu sem lögð var fram á Alþingi af þá stórum hópi þingmanna flokksins árið 2008. Katrín Jakobsdóttir, núverandi forsætisráðherra, var meðal þeirra.
Í tillögunni sagði m.a.: „Augu æ fleiri eru að opnast fyrir verðmæti ósnortinnar náttúru og ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum. Náttúran á sinn eigin sjálfstæða rétt. Við höfum hana að láni frá komandi kynslóðum.“ Einnig: „Jökulsárnar í Skagafirði eru mikilvægar fyrir lífkerfi héraðsins frá jöklum til sjávar. Vötnin hafa ekki aðeins mótað skagfirska náttúru heldur einnig skagfirska menningu og daglegt líf. Þau eru lífæð Skagafjarðar.“
Því faglega mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar að setja ætti virkjanakosti í Héraðsvötnum í verndarflokk sé alþingi nú „að hnekkja með pólitískum hrossakaupum“.
Í niðurlagi greinar sinnar skrifar Jón: „Við unnendur Jökulsánna í Skagafirði krefjumst þess að vatnasvið Héraðsvatna, Jökulsárnar í Skagafirði, verði áfram í vernd.“