Jón Bjarnason, sem var sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2009 til 2011, sagði frá átökum um sjávarútvegsmál og samskiptum sínum við stórútgerðina í bloggfærslu sem hann birti um helgina.
Í færslu sinni segir hann meðal annars að það hafi verið „kyndugt“ að Árni Kolbeinsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri sjávarútvegsmála frá 1985-1998 og að sögn Jóns einn aðalhöfundur kvótalaganna, hafi fengið að sitja sem dómari í Hæstarétti án þess að ríkislögmaður gerði við það athugasemdir, í málum þar sem Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið væri skaðabótaskylt gagnvart útgerðum vegna úthlutunar á makrílkvóta.
„Ekki ætla ég hér að segja að nærvera hins gamla refs kvótalagaáranna hafi haft áhrif á dómsorðin. En óneitanlega var það kyndugt að ríkislögmaður skyldi ekki víkja fyrrverandi ráðuneytisstjóra sjávarútvegsmála úr dómnum svo tengdur sem hann var fyrri pólitískri vinnu í málinu,“ segir í færslu Jóns.
Þar segir hann jafnframt að hann telji að Hæstiréttur hafi „brugðist þjóðinni í þessu máli og gengið í lið með einstökum „kvótagreifum““. Dómurinn hafi þannig „dæmt gegn þeirri lagagrein sem honum bar fyrst og fremst að horfa til“, þeirri lagagrein sem kveður á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar.
„Þessi dómur sýnir fram á hversu andstæð lagatúlkun getur verið markmiðum laganna og hagsmunum þjóðarinnar,“ skrifar Jón.
Útvegsmenn hafi talið sig eiga ráðuneytið
Í færslunni segir ráðherrann fyrrverandi frá því að er hann gekk inn í sjávarútvegsráðuneytið hafi hann upplifað að stjórnendur LÍU, forvera SFS, hafi ekki aðeins talið sig „eiga fiskinn syndandi í sjónum, heldur tröppurnar í ráðuneytinu, stólana við fundarborðið“ og jafnvel líka pappírinn á borðunum.
Jón segir að það hafi sömuleiðis verið afstaða „kerfisins“, stjórnsýslunnar, banka og lögfræðistofa.
„Fékk hinn nýi ráðherra sjávarútvegsmála óspart að heyra það,“ segir í bloggfærslu Jóns, sem hann segist setja fram í ljósi umræðu síðustu daga og vikna. Heitið á pistli Jóns er „Verbúðin - Sjávarútvegsráðuneytið“ og þar ræðir hann meðal annars samskipti sín við stórútgerðir landsins í málum sem varða strandveiðar, úthafsrækju og skötusel.
ESB-sinnar við ríkisstjórnarborðið hafi viljað gefa eftir makrílinn
Í færslu sinni fjallar Jón einnig um makríldeilur við Evrópusambandið og segir að þær hafi verið harðvítugar – og að vilji hafi verið til þess hjá þeim innan ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem helst vildu ganga í ESB til þess að ganga að öllum kröfum ESB í deilum um makrílinn, sem tekið hafði að ganga inn í íslenska lögsögu í miklu magni.
„ESB afneitaði öllum rétti okkar í þeim efnum og lét afar dólgslega, hótaði ítrekað að stöðva aðildarviðræðurnar við ESB ef við hættum ekki makrílveiðunum. Fætur forsætisráðherra og fleiri í ríkisstjórninni vildu bogna undan þeim hótunum ESB og gefa makrílinn eftir. Það verður að segjast hér hreint út að hvorki þær útgerðir, sem síðar höfðuðu mál og kröfðust tuga milljarða í bætur vegna veiðiheimilda í makríl, né aðrir, hefðu fengið marga brönduna ef ESB-aðildarsinnar í ríkisstjórnarflokkunum hefðu fengið að ráða. Það er köld staðreynd,“ skrifar Jón.
Hann segir jafnframt frá því að hótanir ESB hafi „vakið það mikinn ugg að fulltrúar LÍÚ komu á fund ráðherra og báðu hann að slaka á kröfunum í makríldeilunni ef það mætti friða ESB,“ en þá hefði ESB hótað viðskiptastríði og löndunarbanni á íslenskan fisk.
Siðlausar bótakröfur og málshöfðanir
Ráðherrann fyrrverandi segir í færslu sinni að hann telji bótakröfur þær sem alls sjö útgerðir settu fram á hendur ríkinu vegna makrílmálanna og málshöfðanir tiltekinna útgerða vera „gjörsamlega siðlausar“ og að þær hefðu aldrei náð fram að ganga „ef tekið hefði verið af alvöru til varna af löggjafanum og ráðuneytinu“ eins og hann hefði ætlað.
Alls sjö útgerðir settu fram kröfur um 10,2 milljarða bætur auk vaxta vegna makrílmálsins. Einungis Vinnslustöð Vestmannaeyja og Huginn í Vestmannaeyjum hafa haldið sínum málshöfðunum á hendur ríkinu til streitu.
Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes ákváðu að falla frá kröfum sínum um makrílbæturnar eftir að kröfur fyrirtækjanna voru opinberaðar í apríl árið 2020 og vísuðu til samstöðu vegna kórónuveirufaraldursins í tilkynningu sinni um það.