„Ég vil biðjast afsökunar á mínum hlut í Landsdómsmálinu. Fyrir tólf árum ákvað meirihluti Alþingis að vísa máli Geirs H. Haarde til landsdóms. Á þeim tíma sat ég á Alþingi og í nefnd þingmanna sem fjallaði um Rannsóknarskýrsluna og hvernig ætti að taka á lögum um ráðherraábyrgð. Mín afstaða var þá að rétt væri að vísa málum Geirs H. Haarde, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Árna M. Mathiesen til Landsdóms. Þeirri ákvörðun sé ég eftir.“
Svona hefst færsla sem Magnús Orri Marínarson Schram, sem sat á þingi fyrir Samfylkinguna á árunum 2009 til 2013, birti á Facebook í kvöld.
Magnús segir þar að í dag vildi hann óska þess að hann hefði haft hugrekki til að tala fyrir því að umfjöllun um ábyrgð ráðherra hefði lokið á vettvangi þingnefndar sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu í apríl 2010 að nokkrir íslenskir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í september 2010 að ákæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra, þau Geir H. Haarde, Árna Mathiesen, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðsson, fyrir Landsdómi vegna þessarar vanrækslu.
Landsdómsmálinu lauk með því að Geir var fundinn sekur um einn ákærulið en þeir voru upphaflega sex. Honum var ekki gerð refsing. Geir kærði málsmeðferðina til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það mál tapaðist í nóvember 2020.
Stýrðist af andanum í þjóðfélaginu
Magnús segir í færslunni að hann hafi á sínum tíma látið „andann í þjóðfélaginu“ hafa áhrif á sína afstöðu, þegar það hefði verið rétt ákvörðun að vísa engum málum til Landsdóms. „Ég er sannfærður um að þau sem voru til umfjöllunar – Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson, hafa unnið að heilindum við erfið störf í yfirþyrmandi aðstæðum. Ég hef persónulega beðið þau afsökunar á ábyrgð minni og vil einnig gera það hér, með opinberum hætti.“
Magnús segir að nýlega hafi hann verið spurður hvort hvort hann væri enn sömu skoðunar varðandi ákvörðun nefndarinnar og Alþingis, um að vísa málum ráðherranna til Landsdóms og svarið sé að það sé hann ekki. „Málið hefur lengi hvílt þungt á mér og þótt ekki sé hægt að taka aftur þessi mistök þá er mikilvægt að gangast við þeim.“
Ég vil biðjast afsökunar á mínum hlut í Landsdómsmálinu Fyrir tólf árum ákvað meirihluti Alþingis að vísa máli Geirs...
Posted by Magnús Orri Marínarson Schram on Monday, September 19, 2022
Magnús greiddi atkvæði með því að ákæra þrjá ráðherra en gegn því að Björgvin G. Sigurðsson, samflokksmaður hans, yrði ákærður.
Nokkrir núverandi ráðherrar á meðal þeirra sem samþykktu
Á meðal þeirra sem samþykktu ákæruna á hendur Geir í þinginu í september 2010 voru nokkrir ráðherrar sem nú sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Þeir eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason. Sigurður Ingi var raunar einn flutningsmanna þingsályktunartillögunnar um málshöfðunina gegn ráðherrum. Þau kaus Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstri grænna og forseti Alþingis á síðasta kjörtímabili, einnig með ákærunni.
Þingsályktunartillaga ýmissa þingmanna, úr Miðflokki og Sjálfstæðisflokknum, um óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni hefur nokkrum sinnum verið lögð fram á undanförnum árum, en ekki hlotið afgreiðslu. Hún snýst um að þingmennirnir vilja að Alþingi álykti að „rangt hafi verið að leggja til málshöfðun á hendur ráðherrum vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis, sbr. tillögu til þingsályktunar á 138. löggjafarþingi[...], að ranglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu um tillöguna og að rangt hafi verið að samþykkja hana.“