Samfylkinguna vantar forystu og hún hefur verið bæði stefnu- og ákvarðanafælin í mörg ár. Vegna forystuleysis er málflutningur hans óskýr og almennur og þar af leiðandi er stefna hans óskýr. Þetta skrifar Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og núverandi varaþingmaður flokksins, á blogg sitt í dag. „Í stað stefnufestu sem er forsenda trúverðugleika í stjórnmálum hafa fulltrúar flokksins farið of almennum orðum um almenn gildi í hverju málinu af öðru frekar en að beita sér af þunga í málum sem varða almannahag,“ skrifar Ólína.
„Samfylkingin hefur ekki náð neinni fótfestu eftir síðustu kosningar enda glímir hún við augljósa forystukreppu sem birtist grímulaust á síðasta landsþingi þegar formaðurinn hélt velli með eins atkvæðis mun. Fleira kemur þó til sem ekki verður kennt formanni flokksins, a.m.k. ekki eingöngu. Þá á ég við þá stefnu- og ákvarðanafælni sem einkennt hefur Samfylkinguna mörg undanfarin ár og birtist annars vegar í óljósri orðræðu, hins vegar í endalausri stefnumótunarvinnu og endurskoðun gilda og starfsaðferða sem lítið er gert með loks þegar vinnan er afstaðin.“
Viðbrögð Katrínar Júlíusdóttur varaformanns, þar sem hún kallaði eftir allsherjar endurskoðun starfshátta flokksins, sé af þessum toga. Flokkurinn þurfi hins vegar ekki meiri stefnumótunarvinnu, heldur stefnu sem hann geti verið stoltur af. „Hættum að hræra í henni og förum nú að tala fyrir henni, beita henni og heimfæra á málefni líðandi stundar. Til þess þurfum við forystu sem stendur undir nafni og sýnir málefnafestu, fólk sem hlustað er á og hikar ekki við að taka stöðu í einstökum málum, heldur gengur fram af áræði og hugsjón. Góður vilji er ekki nóg.“
Ólína segir skoðanakannanir sýna að forystumenn Samfylkingarinnar hafi ekki náð eyrum eða trúnaði almennings, en það væri samt einföldun að kenna eingöngu um málflutningi núverandi forystu flokksins. „Samfylkingin gerði margvísleg og afdrifarík mistök á síðasta kjörtímabili. Þjökuð af erfiðri stjórnarsetu sem á sér enga líka í stjórnmálasögu okkar yfirgaf hún, nauðug viljug, þau þrjú mál sem ítrekað höfðu verið skilgreind sem þau mál sem Samfylkingin bæri helst fyrir brjósti og myndi ljúka: Fiskveiðistjórnunarmálið, stjórnarskrármálið og ESB-umsóknina.“
Hún segir árangur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við endurreisn efnahagslífsins hafa verið bæði vanmetinn og vanþakkaðan, en samt megi segja að „Samfylkingin hafi uppskorið eins og til var sáð á lokaspretti síðasta kjörtimabils: Íslendingar kusu yfir sig flokkana sem komu þjóðarskútunni á hliðina í hruninu 2008, enda er fólk fljótt að gleyma.“