Frumkvöðullinn Evan Williams er fæddur í Clarks, í Nebraska ríki árið 1972. Hann er alinn upp við bústörf og ýmis störf tengd kornakrinum í heimahögunum og sojabaunaframleiðslu. Hvernig hann leiddist út í forritun og hugmyndavinnu ýmis konar er kannski erfitt að greina í nákvæmisatriðum, en þetta byrjaði allt þegar hann ákvað að hætta í ríkisháskólanum í Nebraska og fara að gera eitthvað annað með félaga sínum. Forritun var grunnurinn en ýmsar pælingar um internetið og samfélagið voru aldrei langt undan.
Sú vinna leiddi til fyrirtækis sem margir þekkja frá árdögum bloggs-ins; Blogger.com. Fyrirtækið náði mikilli fótfestu um allan heim og varð vísir að samfélagsmiðlahugsuninni sem síðar átti eftir verða rótin að einhverjum mögnuðustu samfélagsbreytingum síðustu áratuga. Google sá að Evan og félagar voru að gera eitthvað rétt og keypti Blogger árið 2003. Evan fylgdi með og starfaði hjá Google í tvö ár. Hann hætti til þess að stofna annað fyrirtæki, ásamt fleirum, sem kallað var Twitter. Hann var forstjóri þess og stjórnarformaður á árunum 2008 til 2010. Leiddi uppbyggingu fyrirtæksins, fjármögnunarferla og stefnumótun, áður en hann hætti. Twitter er risavaxið samfélagsnet á alheimsvísu í dag, með meira en 300 milljónir notenda, og er skráð á markað í Bandaríkjunum. Even á enn 10 prósent hlut í fyrirtækinu.
Verkefnið sem á hug hans í dag, og hann stofnaði eftir að hafa hætt hjá Twitter, heitir Medium.com. Það þykir einn framsæknasti fjölmiðill heimsins, og nýtur sívaxandi vinsælda. Síðustu 15 ár hafa því verið nokkuð annasöm hjá þessum bóndasyni frá Nebraska. Það er líklega ofnotað að tala um að menn hafi breytt heiminum, en Even Williams hefur gert það. Eignir hans eru metnar á 3,1 milljarð Bandaríkjadala í dag, eða sem nemur um 400 milljörðum króna.