Fyrstu tölur úr Norðausturkjördæmi komu í hús rétt um klukkan 23.
Samkvæmt þessum fyrstu tölum er Framsóknarflokkurinn stærsti flokkur kjördæmisins en af þeim 7000 atkvæðum sem talin hafa verið í kjördæminu féllu 649 í skaut Framsóknar eða 21,6 prósent. Flokkurinn myndi því bæta við sig einum þingmanni og fá þrjá kjörna. Í þeim hópi er Ingibjörg Ólöf Isaksen sem kæmi ný inn á þing.
Flokkur fólksins fengi kjörinn þingmann í kjördæminu, Jakob Frímann Magnússon, en fyrir hafði flokkurinn engan.
Þeir flokkar sem missa þingmenn eru annars vegar Vinstri Græn sem fá einn þingmann og hins vegar Miðflokkurinn sem missir tvo. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, mældist inni sem jöfnunarþingmaður en þegar fyrstu tölur komu úr öðrum kjördæmum datt hann út og við bættist einn þingmaður fyrir Viðreisn. Áður voru þingmenn Miðflokksins í Norðausturkjördæmi tveir.
Auk Ingibjargar og Jakobs eru önnur ný andlit í hópnum. Berglind Ósk Guðmundsdóttir mælist inni sem annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og Hilda Jana Gísladóttir mælist inni sem annar þingmaður Samfylkingarinnar. Þær eru engir nýliðar í stjórnmálum, hafa báðar starfað í sveitastjórnum.
Talin atkvæði: 3000
Framsóknarflokkur: 21,6 prósent – 3 þingmenn (+1)
Sjálfstæðisflokkur: 19 prósent – 2 þingmenn (-)
Samfylkingin: 14,7 prósent – 2 þingmenn (-)
Vinstri græn: 12,1 prósent – 1 þingmenn (-1)
Flokkur fólksins: 10,8 prósent – 1 þingmaður (+1)
Miðflokkurinn: 6,4 prósent – 0 þingmaður (-2)
Viðreisn: 6 prósent – 1 þingmaður (+1)
Píratar: 4,5 prósent – 0 þingmenn
Sósíalistaflokkurinn: 2,8 prósent – 0 þingmenn
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn: 0,2 prósent – 0 þingmenn
Auðir seðlar voru 79 talsins og aðrir ógildir þrír.
Þingmenn kjörnir 2017:
Sjálfstæðisflokkur 2
Framsóknarflokkur 2
Samfylkingin 2
Vinstri græn 2
Miðflokkurinn 2
Hér að neðan má sjá lokaþingsætaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar fyrir Norðausturkjördæmi.