Leiðtogar G7-ríkjanna hafa ákveðið að stofna fjárfestinga- og innviðaverkefnið B3W, sem mun auðvelda þróunarríkjum að sækja sér fjármagn til þess að byggja upp græna innviði og ráðast í samfélagslega mikilvæg verkefni.
Samkvæmt frétt Reuters um málið sammæltust leiðtogarnir um stofnun verkefnisins á árlegum fundi hópsins, sem stóð yfir um helgina í Cornwall í Bretlandi. Hópurinn inniheldur sjö ríkustu lýðræðisríki heims – Bandaríkin, Bretland, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalíu og Japan – en fulltrúar Evrópusambandsins mættu einnig á fundinn.
Joe Biden Bandaríkjaforseti er sagður hafa hvatt ríkin til að veita þróunarlöndum „lýðræðislegan valkost“ við að þiggja lán frá kínverskum stjórnvöldum í gegnum svokallaða beltis- og brautarverkefni þeirra.
Kjarninn hefur áður fjallað um beltis- og brautaverkefnið, en það hefur verið hornsteinn utanríkisstefnu Kína frá árinu 2013 undir stjórn forsetans Xi Jinping. Verkefnið nær frá Kína til Evrópu, Austur-Afríku og fjölmargra Asíuríkja og yfirlýst markmið þess eru að auka samskipti milli ríkja. Hins vegar líta stjórnvöld ýmissa vesturlanda á verkefnið sem tól kínverskra stjórnvalda til að auka ítök sín í þróunarlöndum.
Nánir samstarfsmenn Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kalla B3W verkefni G7-ríkjanna græna útgáfu af Belti og braut, þar sem ríkari lönd hjálpa þróunarríkjum að fjármagna grænar fjárfestingar.
Kínversk stjórnvöld hafa gagnrýnt áformin og segja þau að raunveruleg alþjóðasamvinnuverkefni ættu að fara fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. „Dagarnir sem ákvarðanir í alþjóðastjórnmálum eru teknar af litlum hópi landa eru löngu liðnir,“ hafði Financial Times eftir talsmanni kínverska sendiráðsins í London.