Síðustu vikur hafa verið ansi viðburðaríkar á vettvangi tveggja helstu stofnana fjármálaheimsins, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ástæðan er hálfgert gagnafár sem kom upp hjá Alþjóðabankanum og ásakanir um að Kristalina Georgieva, sem nú er framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefði beitt sér fyrir því í sínu fyrra starfi að útkoma Kína yrði fegruð í árslegri skýrslu Alþjóðabankans um samkeppnishæfni, Doing Business, fyrir árið 2018.
Við innra eftirlit hjá Alþjóðabankanum kom fram að eitthvað óeðlilegt hafði átt sér stað í gagnavinnslu bæði fyrir skýrsluna sem kom út árið 2018 og þá sem kom út fyrir árið 2020 – en þá reyndar í tilfelli gagna um Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin en ekki Kína. Starfsmenn töldu ekki allt með felldu.
Sökuð um að hafa beitt sér með beinum hætti
Bankinn réði því óháða rannsakendur hjá lögfræðistofunni WilmerHale til þess að fara yfir málin og niðurstöður í skýrslu þeirra reyndust síður en svo hagfelldar Georgievu, sem var framkvæmdastjóri stofnana Alþjóðabankans áður en hún var skipuð í framkvæmdastjórastöðuna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 2019.
Í skýrslunni frá WilmerHale, sem birt var 15. september, sagði nefnilega að Georgieva hefði með beinum hætti komið að því, ásamt öðrum æðstu stjórnendum bankans, að kokka upp leiðir til þess að koma í veg fyrir að niðurstaða Kína yrði lakari í alþjóðlega samanburðinum fyrir árið 2018 en hún hafði verið í skýrslu fyrra árs. Í skýrslu rannsakendanna segir að á sama tíma og verið var að vinna skýrsluna hafi bankinn verið að reyna að fá Kínverja til þess að samþykkja að láta af hendi aukið hlutafé og gefið var í skyn að þarna á milli hefði verið eitthvað samhengi.
Nýtur áfram trausts stjórnar AGS
Síðan skýrsla WilmerHale kom út hefur staða Georgievu, ef til vill eðlilega, verið í lausu lofti hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en á mánudag lýsti stjórn sjóðsins, sem skipuð er 24 fulltrúum allra aðildarríkja, yfir fullu trausti á Georgievu til þess að leiða sjóðinn áfram. Ekki voru talin næg sönnunargögn fyrir því að hún hefði beitt sér með óeðlilegum hætti fyrir því að gögnum um Kína yrði breytt, eins og ýjað var að. Ýmsir höfðu stigið fram henni til stuðnings.
Sjálf hefur Georgieva varið sig af krafti frá því að niðurstöður WilmerHale voru opinberaðar fyrir tæpum mánuði. Í skriflegri yfirlýsingu sem búlgarski hagfræðingurinn sendi framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þann 6. október sagði að niðurstöðurnar í skýrslu WilmerHale gæfu ekki rétta mynd af aðkomu hennar að gerð skýrslunnar.
Raunar sagði Georgieva að sögusögnum væri víða haldið á lofti sem staðreyndum af hálfu skýrsluhöfunda, sem hefðu á einhvern óskiljanlegan hátt látið það fara algjörlega fram hjá sér að kínversk stjórnvöld hefðu árum saman verið fylgjandi því að staðið yrði fyrir hlutafjáraukningu í bankanum. Því væri það algjörlega úr lausu lofti gripið að gefa sér það að matið á Kína hefði verið fegrað til að fá Kínverja að borðinu hvað það varðaði.
Hún sagði sömuleiðis að það væri alrangt að hún hefði beitt þrýstingi á undirmenn innan bankans um að fegra einkunn Kína í samanburðarmatinu, þvert á móti hefði hún gripið til aðgerða sem hefðu varið réttmæta notkun gagna, sem var sú að koma í veg fyrir að gögn um Hong Kong yrðu látin vigta inn í matið á Kína, en upp á því hafði forseti Alþjóðabankans stungið, að hennar sögn. Hið sama var einnig dregið fram í skýrslu WilmerHale.
Engu að síður sagði Georgieva að hún tæki þær athugasemdir sem fram hefðu komið frá fyrrverandi samstarfsmönnum hennar í Alþjóðabankanum „mjög alvarlega“, en rannsóknir málanna voru sprottnar upp úr því að einhverjum starfsmönnum sem komu að gerð Doing Business-skýrslnanna fannst óeðlilega staðið að málum.
„Er ég lít til baka hefði ég viljað hafa meiri innsýn inn í vinnu Doing Business-teymisins, og að ég hefði vitað meira um áhyggjurnar sem sum þeirra greinilega höfðu,“ sagði í yfirlýsingu Georgievu, sem stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur, eftir mikið skraf og ráðagerðir undanfarnar vikur, ákveðið að dugi ásamt öðru til þess að sýna fram á að Georgievu sé áfram treystandi fyrir starfinu.