Lenya Rún Taha Karim varaþingmaður Pírata spyr hvort í staðinn fyrir að efla forvirkar rannsóknarheimildir til að stöðva glæpi, væri „ekki eðlilegra að byggja upp félagslegt stuðningsnet og kerfi sem koma í veg fyrir að fólk leiðist út í glæpi til að byrja með“.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.
Hóf hún ræðu sína á að segja að á sama tíma og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra tæki á móti úkraínsku flóttafólki laumaði hann í samráðsgátt stjórnvalda frumvarpi til að efla svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir lögreglunnar.
„Lögreglan á að fá auknar heimildir til að njósna um fólk og nálgast gögnin þeirra, ef að lögreglan telur mögulegt að þetta fólk geti hugsanlega orðið glæpamenn í framtíðinni,“ sagði hún.
Fengju heimild til að fylgjast með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulagða brotastarfsemi
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögreglulögum til að að skýra og efla heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og öryggi ríkisins, að því er fram kemur í samráðsgáttinni.
Þá segir enn fremur í samráðsgátt stjórnvalda að frumvarpinu sé ætlað að skerpa á heimildum lögreglu til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit í því skyni að draga úr brotastarfsemi en núgildandi heimildir byggi öðru fremur á almennum ákvæðum lögreglulaga auk ákvæða í sérlögum. Annars vegar sé mælt fyrir um heimild lögreglu til að afla upplýsinga í þágu afbrotvarna við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi. Hins vegar sé lögreglu veitt heimild til að viðhafa sérstakt eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða sem af kann að stafa sérgreind hætta fyrir almannaöryggi.
Ráðherrann vill fyrirbyggja að framin séu alvarleg brot og að „lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás“
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að tildrög þess megi rekja til frumkvæðis dómsmálaráðherra um að ráðast í endurskoðun á ákvæði 15. grein lögreglulaga um aðgerðir til að afstýra brotum eða stöðva þau. Markmið endurskoðunarinnar hafi verið að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins, afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og afbrot sem framin eru á netinu.
„Löggæsla nú á tíðum snýr ekki síður að frumkvæðisvinnu í formi upplýsingaöflunar og greiningu upplýsinga. Breytt afbrotamynstur og útbreiðsla skipulagðrar brotastarfsemi á milli landa krefst þess að löggæsluyfirvöld geti brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin. Með frumvarpi þessi er því lögð aukin áhersla á mikilvægi þess að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot. Við framangreinda endurskoðun var sem endranær gætt að því að stjórnarskrárvarin grundvallarmannréttindi borgaranna væru virt í hvívetna,“ segir meðal annars í frumvarpsdrögum ráðherrans.
Við hæfi að auka eftirlit með störfum lögreglunnar
Lenya Rún benti á í ræðu sinni á Alþingi í gær að dómsmálaráðherra rökstyddi þessar breytingar sínar með vísunar til þess hvernig málum er háttað í Noregi og Danmörku. „Mér hefði því þótt við hæfi að hann myndi líka leggja til að auka eftirlit með störfum lögreglunnar, í samræmi við það sem tíðkast í Noregi og Danmörku. Því ef lögreglan vill sinna öflugra eftirliti þarf hún sjálf að sæta öflugra eftirliti,“ sagði hún.
Nefndi hún jafnframt að á Íslandi væri til staðar nefnd um eftirlit með lögreglu sem fengi ekki upplýsingar um eftirlit lögreglu með almennum borgurum nema af lögreglan upplýsti um það sjálf. „Og þegar nefndin kallar eftir gögnum frá lögreglu þá er hún treg við að afhenda þau, eins og formaður nefndarinnar lýsti í fjölmiðlum í fyrra,“ sagði hún og vísaði í frétt þess efnis.
Frekar byggja upp stuðningsnet sem kæmi í veg fyrir að fólk leiddist úr í glæpi
Lenya Rún sagðist sannfærð um að aukið eftirlit með lögreglu yrði henni til hagsbóta. „Til dæmis myndi aukið aðgengi fjölmiðla að upptökum úr búkmyndavélum lögreglu taka af allan vafa um störf hennar, sem er einmitt einn megintilgangur myndavélanna að sögn yfirlögregluþjóns. Núverandi aðstoðarmaður dómsmálaráðherra hefur jafnframt sagt að myndavélarnar séu gríðarleg réttarbót fyrir lögreglumenn, með upptökunum losni þeir undan tilhæfulausum ásökunum um misbeitingu valds. Ef lögreglumenn hafa ekkert að fela þurfa þeir ekkert að óttast aukið eftirlit, er það nokkuð?
Í staðinn fyrir að efla forvirkar rannsóknarheimildir til að stöðva glæpi, væri ekki eðlilegra að byggja hér upp félagslegt stuðningsnet og kerfi sem koma í veg fyrir að fólk leiðist út í glæpi til að byrja með? Það er alvöru forvirk aðgerð sem virkar. Við ættum bara að byrja þar,“ sagði hún að lokum.