Sigurbjörg Erla Egilsdóttir bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi gerir ráðningarsamning nýs bæjarstjóra, Ásdísar Kristjánsdóttur, að umtalsefni í stöðuuppfærslu á Facebook í dag en þar bendir hún að í samningnum sé kveðið á um fasta mánaðarlega greiðslu vegna aksturs sem nemi 1.250 kílómetrum – að upphæð 158.750 króna, skattfrjálst – í hverjum mánuði út kjörtímabilið.
Fram kemur í drögum að ráðningarsamningi að laun bæjarstjóra skuli vera 2.380.021 krónur á mánuði miðað við 1. júní 2022. Auk launanna fær bæjarstjóri greitt fyrir setu í stjórnum eins og stjórn SSH og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
„Þetta er rosalega mikill akstur og engin rök fyrir slíku ákvæði. Þetta jafngildir um 60 kílómetra akstri hvern einasta vinnudag. Hvern. Einasta. Vinnudag. Það er engin þörf fyrir bæjarstjóra Kópavogs til að keyra svona mikið vegna starfa sinna, en þess má jafnframt geta að Kópavogsbær á og rekur nokkra rafbíla sem standa starfsfólki stjórnsýslunnar til boða þegar það þarf að fara úr húsi til að reka erindi,“ skrifar hún.
Bæjarfulltrúinn segir að ákvæðið stingi jafnframt í stúf við bæði yfirmarkmið Kópavogsbæjar, Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna, og málefnasamning meirihlutans þar sem fjallað sé um mikilvægi þess að vanda vel til verka þegar kemur að umhverfismálum, og að vistvænir ferðamátar og virðing gagnvart umhverfinu leiki þar lykilhlutverk. „Það að bæjarstjóri Kópavogs fyrirhugi að aka 60.000 kílómetra á kjörtímabilinu setur ekki gott fordæmi.“
Hún bætir því við að engan skuli kannski undra að í umræddum málefnasamningi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sé ekki orði minnst á borgarlínu, strætó eða almenningssamgöngur.
Í ráðningarsamningi nýs bæjarstjóra Kópavogs í boði xB og xD er kveðið á um fasta mánaðarlega greiðslu vegna aksturs sem...
Posted by Sigurbjörg Erla Egilsdóttir on Wednesday, June 15, 2022