Það kostar ríkisssjóð 438 milljónir króna að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum en 73 prósent þeirri upphæð renna til tveggja tekjuhæstu tíundanna. Enn fremur njóta mun fleiri karlar góðs af henni heldur en konur. Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.
Í síðustu fjárlögum var ákveðið að hækka frítekjumark atvinnutekna aldraðra úr 100 þúsund krónum í 200 þúsund krónur. Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um var áætlað að meirihluti upphæðarinnar sem færi í þá aðgerð myndi renna til tekjuhærri hópa og karlmanna.
Sú reyndist vera raunin, en í svari félagsmálaráðuneytisins kom fram að alls nutu 1.276 ellilífeyrisþegar góðs af hækkun frítekjumarks atvinnutekna. Þar á meðal voru 822 karlar og 454 konur. Aðgerðin kostaði ríkissjóð 438 milljónir króna, en þar af renna 317 milljónir til tekjuhæstu 20 prósentanna.
Jóhann Páll vekur athygli á svarinu á Facebook-síðu sinni, en þar segir hann stjórnarflokkana hafa talið brýnast að styðja sérstaklega við tekjuhærri hópana og karla frekar en konur. Sá hópur eldra fólks sem getur ekki unnið sé skilinn eftir með átta sinnum lægra frítekjumark, en almenna frítekjumarkið nemur um 25 þúsundum króna.
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um voru áhrifin af hækkun almenna frítekjumarksins einnig metin í fyrra, en samkvæmt minnisblaði frá félagsmálaráðuneytinu hefði slík aðgerð dreifst mun jafnar á milli kynja og tekjuhópa. Á þetta minnist Jóhann Páll í uppfærslunni sinni og segir kjaragliðnun á milli tekjulægstu lífeyrisþega og lágmarkskjara á vinnumarkaði halda áfram af fullum þunga.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur undir með Jóhanni Páli í athugasemd við stöðuuppfærslu hans, en þar segir hún að það virðist vera markmið ríkisstjórnarinnar að gera betur við þau sem hafa mest á milli handanna.