Nýleg ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans um að hækka svokallaðan sveiflujöfnunarauka um tvö prósentustig er ekki í samræmi við eigið mat hans á uppbyggingu sveiflutengdrar kerfisáhættu. Auk þess sem hún er mjög úr takti við ákvarðanir í helstu samanburðarríkjum Íslands. Þetta skrifar Jón Þór Sturluson, dósent í fjármálum við viðskiptadeild HÍ, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Hámark á greiðslubyrði skref í rétta átt
Jón Þór, sem sat í forvera fjármálastöðugleikanefndar bankans á árunum 2013-2019, fer einnig yfir nýlega ákvörðun nefndarinnar um að virkja nýtt stjórntæki um hámark greiðslubyrðar fasteignalána. Að hans mati var sú ákvörðun varfærið skref í rétta átt, þar sem hún vinnur gegn hættunni á röskun í starfsemi fjármálakerfisins ef veruleg og hröð leiðrétting verður á fasteignaverði.
Þó segir Jón að hámark á greiðslubyrði sé ekki gallalaust verkfæri, en full ástæða hefði verið til a skoða aðra valkosti, líkt og að greina endurbætur á greiðslumati bankanna eða að setja reglur um hámark lánsfjárhæðar sem hlutfall tekjum í stað greiðslubyrðar.
Brattari hækkun en í samanburðarlöndum
Hin ákvörðun nefndarinnar um að hækka eiginfjárkröfur fjármálafyrirtækja töluvert með svokölluðum sveiflujöfnunarauka er hins vegar verr rökstudd að mati Jóns Þórs.
Samkvæmt honum er eðlilegt að sveiflujöfnunaraukinn sé hækkaður á ný þegar óvissa um stöðu fjármálakerfisins fari minnkandi. „Það sem vekur hins vegar athygli er hversu stór boðuð hækkun er, bæði með hliðsjón af greiningu á sveiflutengdri kerfisáhættu og í alþjóðlegum samanburði,“ segir hann í grein sinni.
Hann bætir einnig við að viðlíka hækkun, úr 0 prósentum upp í tvö prósent, eigi sér ekki fordæmi í samanburðarlöndum Íslands, en þar hafa nýlegar hækkanir verið mun hófsamari heldur en hérlendis.
„Vissulega eru sýnilegir veikleikar á fasteignamarkaði sem hluti aðgerðanna beinist að. Flest bendir þó til þess að Seðlabankinn láti einskis ófreistaðs í viðleitni sinni á að hafa hemil á hækkun fasteignaverðs í þeim tilgangi að draga úr verðbólgu í landinu,“ segir Jón Þór í greininni sinni. „Getur verið að peningastefnan hafi fengið stjórntæki fjármálastöðuleika að láni, að minnsta kosti um stundarsakir?“ bætir hann við.
Hægt er að lesa grein Jóns Þórs í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.