Fellibylurinn Soudelor gekk yfir Tævan í morgun og nær ströndum Kína síðar í kvöld. Í Kaliforníu berjast allir sem vettlingi geta valdið við gróðurelda, fullorðnir jafnt sem börn. Fjölmargir hafa misst heimili sín vegna eldanna sem læsa sig í skraufþurran gróðurinn vestanhafs. Þá virðast Talibanar vilja halda áfram baráttu sinni þrátt fyrir dauða leiðtoga síns. Hér er brot af því sem er að gerast á erlendum vettvangi.
Fellibylurinn Soudelor fór yfir Tævan í dag og olli töluverðum usla. Fimm fórust í veðurofsanum og meira en 185 eru slasaðir, samkvæmt stjórnvöldum í Tævan. Fimm til viðbótar er saknað en meðal þeirra sem fórust var átta ára gömul stúlka og móðir hennar þegar sjór gekk á land og dró þær til hafs. Bylurinn stefnur nú á stendur Kína.
Mæðgurnar Laureen Lee og Bella Lee, 10 ára, eru meðal sjálfboðaliða sem hjálpa til við að slökkva gróðurelda í Kaliforníu. Laureen og Bella hafa þurft að yfirgefa heimili sitt vegna eldanna nærri Clearlake Oaks. Svæðið sem brunnið hefur er meira en 300 ferkílómetrar að flatarmáli. Nú þegar hefur gróðureldurinn eyðilagt meira en 100 byggingar, þar af 43 heimili.
Meira en 50 manns hafa fallið í öldu árása síðasta sólarhring gegn afgönskum her, lögregluliði og bandarískum sérsveitum í Kabúl, höfuðborg Afganistan. Hundruðir eru slasaðir. Árásarhrinan hefur dregið úr vonum um að hreyfing Talíbana sé veikari eftir dauða leiðgans Mullah Mohammad Omar. Tilkynnt var um dauða hans á dögunum en hann er talinn hafa látist fyrir tveimur árum.
Nú er ekki lengur tekið við fleiri flóttamönnum í flóttamannabúðum í Traiskirchen í Austurríki því búðirnar eru löngu orðnar yfirfullar. Þær voru hannaðar fyrir að mesta lagi 1.800 manns en nú hafast þar við 4.500 manns. Straumur flóttamanna til Evrópu, frá stríðshrjáðum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs og Afríku, hefur aldrei verið meiri en nú.
Börn leita að eigin friðarkerti við minningarathöfn í Nagasaki í Japan um kjarnorkusprengjuna sem féll þar 9. ágúst 1945. Það er síðasta kjarnorkusprengjan sem notuð hefur verið í hernaði. Fjöldi kerta sem tendruð voru eru í samræmi við fjölda þeirra sem féllu í árásinni, eða um það bil 74.000 manns. Kjarninn fjallaði ítarlega um aðdraganda og eftirmála fyrstu kjarnorkuárásanna í gær.