Sjónvarpsþáttaröðin Game of Thrones snýr aftur á skjáinn hjá HBO sjónvarpsstöðinni í kvöld, en Stöð 2 hefur þættina til sýninga hér á landi. Samkvæmt umfjöllun fréttamiðilsins Quartz, tróna þættirnir efst á vafasömum lista yfir mest niðurhalaðasta sjónvarpsefni sögunnar.
Til þess að bregðast við ólöglegu niðurhali á þáttunum hefur HBO brugðið á það ráð að frumsýna fyrsta þáttinn í fimmtu seríu Game of Thrones samtímis í mörgum löndum, og er Ísland þar á meðal. Fyrsti þátturinn verður sýndur á Stöð 2 klukkan eitt í nótt. Viðbragð HBO má rekja til óþolinmæði fjölmargra aðdáenda þáttanna að bíða eftir sýningu þeirra í sínu heimalandi. Framvegis verða svo þættir seríunnar sýndir á sama tíma og í löndunum og í Bandaríkjunum.
Samkvæmt umfjöllun Quartz hefur sjónvarpsþáttunum verið niðurhalað í yfir 200 löndum víðs vegar um heiminn. Þá hefur þáttum úr fyrri fjórum seríum þáttanna verið niðurhalað meira en 7 milljón sinnum á síðastliðnum tveimur mánuðum. Aðdáendur þáttanna í Brasilíu voru þar sérflokki, en þar var þáttunum niðurhalað ólöglega í hátt í milljón skipti. Frakkar voru næst duglegastir við að niðurhala sjónvarpþáttum Game of Thrones ólöglega á eftir Brasilíumönnum,
Til samanburðar má nefna tölur yfir niðurhal á öðrum vinsælum sjónvarpsþáttum sem hafa notið alþjóðlegrar hylli sjónvarpsáhorfenda á sama tímabili. Á síðastliðnum tveimur mánuðum hefur þáttum í sjónvarpsþáttaröðinni The Walking Dead verið niðurhalað 5,7 milljónum sinnum. Þá hefur þáttunum um Walter White og Jesse Pinkman í Breaking Bad sjónvarpþáttaröðinni verið niðurhalað í 3,8 milljónir skipta, sjónvarpsþættirnir Vikings koma þar á eftir með 3,4 milljónir niðurhöl, og þáttunum vinsælu um Frank Underwood, House of Cards, var niðurhalað í 2,8 milljónir skipta á síðastliðnum tveimur mánuðum.
Til marks um eftirvæntinguna sem ríkir eftir nýjustu þáttaröð Game of Thrones var greint frá því í fjölmiðlum í dag að fyrstu fjórir þættirnir í seríunni hafi nú þegar lekið á netið, og séu meðal annars aðgengilegir ólöglega í gegnum Popcorn-Time deiliskrárforritið, sem margir álíta að sé ein helsta ógn gegn höfundavörðu sjónvarpsefni í heiminum í dag.