Rússneska ríkisfyrirtækið Gazprom hefur framfylgt fyrirskipunum stjórnvalda í Kreml og skrúfað fyrir gasið. Ákvörðunin bitnar, enn sem komið er, fyrst og fremst á Búlgörum og Pólverjum þar sem orkufyrirtækin Bulgargaz og PGNiG fá ekki lengur afhent rússneskt gas. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og verð á gasi í Evrópu hefur hækkað um allt að 24 prósent í dag.
Þessi viðbrögð stjórnvalda í Kreml, undir forsæti Vladimírs Pútíns, við hörðum viðskiptaþvingunum vegna innrásarinnar í Úkraínu, voru fyrirséð. Talið er að um 40 prósent alls gass sem notað er innan Evrópusambandsins sé unnið innan landamæra Rússlands. Gasið er því eitt sterkasta vogarafl Pútíns. „Þetta er hótun gegn Evrópusambandinu til þess gerð að við upplifum okkur ekki örugg,“ segir Trine Villumsen Berling, sérfræðingur hjá Dansk Institut for Internationale Studier, í samtali við danska ríkisútvarpið í morgun. Hún segir Rússa vera að senda pólitísk skilaboð – sérstaklega til Póllands sem er ofarlega á lista Pútíns yfir „óvinaþjóðir“ í augnablikinu. Þangað hefur fólk frá Úkraínu langflest flúið undan árásunum.
En ekki er þó allt sem sýnist í þessum efnum. Það er ekki beinlínis þannig að um stórt áfall í orkumálum sé að ráða, heldur einmitt, líkt og Berling bendir á, frekar áminning frá Rússum um hvaða vald og yfirburði þeir hafa þegar kemur að gas- og olíumarkaðnum í þessum heimshluta. Í raun hefur gas sem á uppruna sinn í rússneskri jörð ekki flætt um Jamal-gasleiðsluna – leiðslu sem liggur frá Rússlandi til Póllands – síðan í byrjun mánaðarins. Gasið hefur flætt í öfuga átt, ef svo má segja. Það er þýskt gas sem Pólverjar hafa notað til að kynda hús sín síðustu vikurnar.
Gazprom segist hafa skrúfað fyrir gasið til Búlgaríu og Póllands í dag vegna þess að ríkin hafi ekki greitt fyrir viðskiptin í rúblum líkt og rússnesk stjórnvöld fara fram á. Þótt aðgerðin bíti ekki fast nú, líkt og á undan er rakið og einnig vegna þess að það er að koma sumar og minni orkunotkun fram undan, þá er hér um að ræða harðasta viðbragð stjórnar Pútíns við hinum alþjóðlegu viðskiptaþvingunum sem lagðar hafa verið á Rússland og borgara þess innanlands og síðustu tvo mánuði.
Stjórnvöld í Póllandi og Búlgaríu segja aðgerðir Gazprom brot á langtímasamningi. Orkumálaráðherra Búlgaríu segir ljóst að Rússar noti jarðgas sem „efnahagslegt og pólitískt vopn“ í stríðsrekstri sínum.
Pútín forseti hefur krafist þess að kaupendur frá „óvinveittum löndum“ borgi fyrir gas í rúblum. Að öðrum kosti verði skrúfað fyrir. Og það hefur nú verið gert.
Jamal-leiðslan liggur frá Rússlandi, í gegnum Pólland og þaðan til Þýskalands. Þaðan er gas svo leitt til annarra Evrópuríkja. Gasið sem um hana streymir alla jafna, hið rússneska jarðgas, er unnið djúpt úr jörðu í nyrstu hlutum Rússlands, meðal annars í Síberíu.
Gazprom hefur hingað til útvegað Póllandi um 50 prósent af öllu gasi sem notað er í landinu. Hlutfallið er enn hærra í Búlgaríu eða um 90 prósent. Pólsk stjórnvöld segjast eiga töluverðar gasbirgðir í augnablikinu, svo orkuskortur sé ekki yfirvofandi. Stjórnvöld í Búlgaríu eiga í samningaviðræðum við aðra en Rússa um gaskaup.
Margir hafa sagt að alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gegn Rússum muni ekki bíta að ráði vegna þess hversu Evrópusambandið sem og fleiri ríki utan þess eru háð rússnesku gasi. Öll þessi orkuviðskipti við Rússa, sem ekki er hægt að hverfa frá í einu vetfangi, hafa verulega dregið úr áhrifum viðskiptaþvingana. Rússneska ríkið fær milljónir á milljónir ofan í sinn kassa daglega vegna orkuviðskipta við Vesturlönd.
Öll húsin. Allar verksmiðjurnar. Allt samfélagið í Evrópu sem hingað til hefur stólað á ódýrt, rússneskt gas. Breytingar gætu verið í farvatninu og það gæti aftur haft áhrif á raforkuverð almennings. Ekkert getur komið hratt og auðveldlega í stað olíu og jarðgass frá Rússlandi.