Gunnar H. Gunnarsson oddviti framboðsins Reykjavík, besta borgin segist vera gáttaður á því að umhverfissinnar og önnur sem vilja beita sér fyrir aðgerðum í loftslagsmálum séu ekki sífellt að berja á Reykjavíkurborg um að beita sér fyrir alvöru í því að flugvöllurinn í Vatnsmýri víki fyrir þéttri miðborgarbyggð við fyrsta tækifæri.
„Ég er algjörlega gáttaður á því að umhverfissinnar séu ekki komnir á fulla ferð í að lemja á borginni og heimta að hún geri grein fyrir því hún ætlar að minnka [útblástur] CO2 og gefi flokkum og framboðum einkunn eins og þau gerðu í haust, því það er ekkert smáræðis í húfi,“ segir Gunnar og vísaði til einkunnagjafar Ungra umhverfissinna fyrir alþingiskosningarnar, þar sem loftslagsstefnur flokkanna voru metnar.
Þetta er á meðal þess sem kom fram í máli Gunnars í samtali við Eyrúnu Magnúsdóttur í hlaðvarpsþætti Kjarnans, Með orðum oddvitanna, sem kom út í dag í Hlaðvarpi Kjarnans. Þar fór Gunnar yfir helstu stefnumál framboðsins og kom því á framfæri að hann teldi engan hafa boðið Reykvíkingum betri díl en Reykjavík, besta borgin gerir í þessum kosningum.
Vilja 7 milljarða á ári í leigu undir flugvöllinn
Aðalstefnumál framboðsins er að flugvöllurinn í Vatnsmýri víki fyrir þéttri borgarbyggð, en Reykjavík, besta borgin segir mögulegt að byrja að rukka ríkisvaldið um leigu á því borgarlandi sem liggur undir flugvellinum.
„Borgin á ⅔ af lóðinni undir flugvellinum, hún er 200 milljarða króna virði, og bingó, það er engin leiga og hefur ekki verið í 80 ár. Hvers konar hagsmunagæsla er þetta eiginlega hjá þeim sem stjórna borginni? Það er verið að fórna hagsmunum Reykvíkinga,“ segir Gunnar, en í stefnuskrá framboðsins er talað um að ríkið greiði 3,5 prósent af andvirði borgarlandsins í leigu á ári, sem væru 7 milljarðar króna.
Pólitískur ómöguleiki landsmálaflokka
Hann segist í viðtalinu hafa rætt við borgarpólitíkusa, bæði til hægri og vinstri, sem hafi í gegnum árin flestir verið sammála um að flugvöllurinn í Vatnsmýri skuli víkja og að auðvitað ætti að byggja þarna. Þeir hafi þó flestir á sama tíma lýst þeirri skoðun að það væri „ekki pólitískt mögulegt“ þar sem það sé misvægi atkvæða á milli höfuðborgar og landsbyggðar, flokkarnir missi atkvæði úti á landi og dreifbýlingar séu duglegir að mæta á landsfundi – og gætu þar ógnað formanni flokks sem vilji að flugvöllurinn víki.
„Þetta er bara „lousy“ pólitík, þetta er ekkert annað og rosaleg ömurð að horfa upp á þetta,“ segir Gunnar, sem segir Reykvíkinga hafa möguleika á að „gera eitthvað í málinu“ með því að kjósa afl eins og hans, sem er óháð landsmálapólitíkinni.
Gunnar segir að hann og Örn Sigurðsson meðframbjóðandi hans, sem hafa verið virkir í starfi Samtaka um betri byggð um lengri tíma, hafi í fórum sínum „nokkur tonn af gögnum“ um hagkvæmni þess að flugvöllurinn víki og segir að þær tölur sem þeir hafi í fórum sínum séu aldrei véfengdar – þó að bæði stjórnmálamenn og fjölmiðlar virðist hafa ákveðið að hundsa þær.
Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan: