Gengisvísitala íslensku krónunnar hefur haldist tiltölulega stöðug undanfarna 15 mánuði þótt verð á öðrum gjaldmiðlum í íslenskum krónum hafi ýmist hækkað eða lækkað. Dollarinn hefur hækkað mikið í verði og verð sterlingspunds hefur einnig hækkað. Samtímis hefur verð evrunnar og dönsku, sænsku og norsku krónunnar lækkað.
Gengi gjaldmiðla í apríl 2015. Mynd af vefsíðu Landsbankans.
Greiningardeild Landsbankans birti í dag meðfylgjandi mynd af gengisþróun sex gjaldmiðla frá ársbyrjun 2014. Þessir gjaldmiðlar vega þyngst í utanríkisviðskiptum Íslendinga og mynda stærstan hluta gengisvísitölunnar. Hlutur evrunnar er tæp 38 prósent, hlutur Bandaríkjadollars er rúm 12 prósent og norska krónan, pundið og danska krónan vigta ríflega 9 prósent hver. Á myndinni hefur gengi allra gjaldmiðlanna verið stillt í gildið 100 í ársbyrjun 2014 og sýna línuritin því hvernig gengið hefur breyst í prósentum talið. Til dæmis hefur verð á dollar í krónum talið hækkað um 20 prósent.
Þessi breyting á gengi gjaldmiðla gagnvart krónunni, þar sem dollarinn hefur hækkað en evran lækkað, endurspeglar þróunina milli þessara tveggja gjaldmiðla. Dollarinn hefur undanfarna mánuði styrkst mikið gagnvart öðrum gjaldmiðlum á meðan evran hefur átt undir högg að sækja.
Tengt efni:
Bogi útskýrir gengisvísitöluna.