Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun ekki gera aðra tilraun til þess að fá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til þess að mæta fyrir nefndina og gera grein fyrir sinni sýn á lekamálið, nú þegar hún er snúin aftur á Alþingi.
Þetta staðfestir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og formaður nefndarinnar, við Kjarnann í dag. Hann segir að nefndin vinni nú að frágangi skýrslu sinnar um málið til þingsins.
Ögmundur sendi Hönnu Birnu boð um að mæta á fund nefndarinnar í janúar síðastliðnum. Það var eftir að umboðsmaður Alþingis lauk sinni athugun á samskiptum hennar við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Í bréfinu kom fram að mörgum þingmönnum þætti að í þingsal hefðu komið fram fullyrðingar af hálfu Hönnu Birnu sem væru „mótsagnakenndar eða hefðu hreinlega ekki fengið staðist.“ Þá var óskað eftir því að hún kæmi á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir sinni sýn á málin og til þess að svara spurningum nefndarmanna um það.
Hanna Birna svaraði ekki bréfinu svo að Ögmundur sendi ítrekun um málið þann 12. mars. Hanna Birna svaraði því bréfi og afþakkaði boð nefndarinnar. Hún sagðist þá vísa til þeirra upplýsinga og gagna sem þegar lægju fyrir um málið. „Þar sem ég gegni ekki lengur embætti innanríkisráðherra, hef áður svarað umboðsmanni Alþingis í fjórum formlegum bréfum og er sem stendur í leyfi frá þingstörfum, þá vísa ég til ofangreinds og óska nefndinni velfarnaðar í sínum störfum en óska jafnframt ekki eftir að koma frekari upplýsingum að vegna málsins,“ sagði hún í bréfinu.