Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, skilaði fyrir helgi minnisblaði til innanríkisráðuneytisins þar sem hann rýnir í álit umboðsmanns Alþingis vegna samskipta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaða Hafsteins er sú að umboðsmaður Alþingis beini engum sérstökum tilmælum til innanríkisráðuneytisins en gerir athugasemdir við ákveðin atriði í starfsemi ráðuneytisins, til dæmis skráningu funda og stöðu aðstoðarmanna. Þessum tilmælum beinir hann til forsætisráðuneytisins.
Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við Háskóla Íslands.
Minnisblaðið er sjö blaðsíður og það er dagsett 30. janúar 2015. Í því rekur Hafsteinn helstu niðurstöður umboðsmanns Alþingis og fer yfir þau tilmæli sem umboðsmaður beindi til stjórnsýslunnar. Það er álit Hafsteins að niðurstaða umboðsmanns "kalli ekki á sérstakar ráðstafanir ráðuneytisins, svo sem endurupptöku mála eða breytingu á reglum." Hafsteinn vekur hin vegar athygli ráðherrans á nokkrum atriðum sem snúa að starfsemi ráðuneytisins.
Umboðsmaður á að fá upplýsingar
Hafsteinn vekur sérstaka athygli innanríkisráðherra á umfjöllun umboðsmanns um "samskipti hans og stjórnvalda og mikilvægi þess að stjórnvöld virði 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og veiti gonum svo fljótt sem unnt er þær upplýsingar sem hann óskar eftir í tengslum við athugun sína".
Í áliti umboðsmanns Alþingis kom meðal annars fram að hann hafi hvorki fengið gögn né upplýsingar um þá lögfræðilegu ráðgjöf sem Hanna Birna Kristjánsdóttir kvaðst sjálf hafa fengið innan ráðuneytisins um hvernig haga skyldi samskiptum við lögregluna á meðan rannsókn lekamálsins stóð yfir.