Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015, sem Bjarni Benediktsson ráðherra efnahags- og fjármála lagði fram á Alþingi í dag, er gert ráð fyrir 4,1 milljarðs afgangi. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 644,6 milljarðar króna en heildarútgjöld 640,5 milljarðar.
Hækka á neðra þrep virðisaukaskatts úr 7% í 12%, meðal annars á matvörur, og lækka á efra þrep virðisaukaskatts úr 25,2% í 24%. Afnema á almennt vörugjald og undanþágur vegna afþreyingarferða.
Þá eru arðgreiðslur áætlaðar 15,4 milljarðar króna, vaxtatekjur gefi 18,2 milljarðar króna og rekstrartekjur sem eru ótaldar annars staðar, eins og það er nefnt, verið 16,9 milljarðar.
Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs miðað við árlega landsframleiðslu verði 74 prósent í lok árs en sama hlutfall var um 90 prósent í lok árs 2011.
Sjá má nákvæmt yfirlit yfir fjárlög næsta árs á vefsíðunni fjarlog.is (síðan lá niðri um tíma þegar þetta var skrifað, en virkar þegar allt er eðlilegt).
Kjarninn mun birta fleiri fréttir úr fjárlögunum eftir því sem líður á daginn.