Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, eyddi tölvupósti sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum og nú lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hafði milligöngu um að hann fengi. Gísli Freyr eyddi raunar öllu póstum tengdum hælisleitandanum Tony Omos úr pósthólfi sínu eftir að lekamálið svokallaða komst í hámæli. Þetta kom fram i Kastljósi í kvöld.
Gísli Freyr hefur játað að hafa lekið minnisblaði með upplýsingum um Tony Omos til Fréttablaðsins og mbl.is sem birtust í miðlunum þennan saman dag, 20. nóvember. Áður en minnisblaðinu var lekið var búið að bæta upplýsingum við það um Omos. Gísli Freyr var í síðustu viku dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir lekann.
Sagði málið tilbúið í fjölmiðlunum
Í umfjöllun Kastljós kom fram að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi verið yfirheyrð vegna rannsóknar lögreglu á lekamálinu í apríl. Þar sagðist hún ekki hafa vitað af þeim samskiptum sem Gísli Freyr átti við Fréttablaðið og Morgunblaðið daginn sem minnisblaðinu um Tony Omos var lekið.
Þetta sé aðför gegn ráðuneytinu og starfsfólk þess þar sem það er sakað um ótrúlegustu hluti í tengslum við þetta mál og önnur
Í skýrslu lögreglu segir að þegar Hanna Birna var spurð hvort hún vildi eitthvað tjá sig um málið að lokum hafi hún sagt að „erfitt [sé] að sitja undir þessu sem og aðrir starfsmenn ráðuneytisins. Segir hún að þetta mál sé tilbúið í fjölmiðlum og vera með miklum ólíkindum. Þetta sé aðför gegn ráðuneytinu og starfsfólk þess þar sem það er sakað um ótrúlegustu hluti í tengslum við þetta mál og önnur."
Sagði skoðun hafa sýnt engan leka
Framan af þessu ári vísaði Hanna Birna ítrekað í athugun sem hún lét rekstrarfélag Stjórnarráðsins gera á lekamálinu þegar hún varði sig. Þann 27. janúar fór fram sérstök umræða um lekamálið á Alþingi og þar sagði Hanna Birna nokkuð hastarlega í andsvari við fyrirspurn stjórnarandstöðuþingmannsins Valgerðar Bjarnadóttur að „niðurstaða þessara athugana er, að ekkert í gögnum ráðuneytisins bendir til þess að trúnaðargögn hafi verið send til aðila sem ekki eiga rétt á þeim lögum samkvæmt. Frá þessu hefur ráðuneytið ítrekað greint, í svörum sínum til lögmanna hælisleitanda, í svörum til fjölmiðla og ítrekuðum yfirlýsingum á heimasíðu ráðuneytisins. En þrátt fyrir það eru áfram fluttar fréttir af meintum leka úr ráðuneytinu og jafnvel án þess að orðið meintur sé notað“.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur beitt fordæmalausum þrýstingi á ýmsar stofnanir vegna lekamálsins.
Þann 16. maí síðastliðinn svaraði Hanna Birna síðan skriflegri fyrirspurn um lekamálið. Í svari hennar segir: „Vegna þeirrar fyrirspurnar sem hér er lögð fram er rétt að ítreka þær upplýsingar sem þegar hafa verið birtar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins, þar sem fram kemur að sérstök skoðun ráðuneytisins og rekstrarfélags Stjórnarráðsins, sem hefur umsjón með tölvukerfi ráðuneytisins, hafi ekki gefið tilefni til að ætla að trúnaðargögn hafi verið send óviðkomandi aðilum frá ráðuneytinu. Athugað var hvort upplýsingar hefðu verið sendar úr málaskrá ráðuneytisins eða með tölvupósti til óviðkomandi aðila. Hefur rekstrarfélagið staðfest að svo var ekki“.
Skoðunin hvorki ítarleg né umfangsmikil
Í Kastjósi í kvöld kom fram að samkvæmt rannsóknargögnum málsins var skoðun rekstrarfélags Stjórnarráðsins hvorki ítarleg né umfangsmikil. Raunar einskorðaðist hún við þrönga skoðun á samskiptum ráðuneytisstarfsmanna við fjölmiðla. Rannsókn rekstrarfélagsins fór þannig fram að gerð var orðaleit í tölvupóstum starfsmanna með tvennum hætti. Annars vegar var orðasambandið „Tony Omos" kannað og hins vegar „Evelyn Glory Joseph".
Gísli Freyr Valdórsson hefur játað að hafa lekið minnisblaðinu fræga. Hann var í síðustu viku dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Auk þess takmarkaðist leitin við efnislýsingu í haus tölvupóstsendinga, það er fyrirsögn eða heiti tölvpósts (e. subject), og heiti viðhengis, en ekki raunverulegs efnisinnihalds þeirra. Sú leit einskorðaðist auk þess við að kanna hvort einhver starfsmaður hefði sent fjölmiðli minnisblaðið úr pósthólfi sínu í ráðuneytinu.
Í Kastljósi kom fram að þegar lögreglan framkvæmdi loks leit í tölvupósthólfum þeirra átta starfsmanna ráðuneytisins sem höfðu haft aðgang að minniblaðinu í apríl, hafi minnisblaðið fundist í tölvupósthólfum allra starfsmanna sem höfðu fengið það, nema hjá Gísla Frey, sem var búinn að eyða því.
Eyddi líka pósti frá Sigríði Björk
Það var ekki eini tölvupósturinn sem Gísli Freyr var búinn að eyða. Tölvupóstur sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum og nú lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hafði milligöngu um að sendur yrði til Gísla, hafði líka verið eytt. Þegar Gísli Freyr var spurður út í þetta við yfirheyrslur og einnig hvort hann hafi sérstaklega eytt öllu sem tengdist Tony Omos úr tölvu sinni sagði Gísli Freyr: „Af því bara, það er svarið“. Um var að ræða greinargerð um mál Tony Omos.
DV greindi frá því í gær að Gísli Freyr og Sigríður Björk hafi hringst þrívegis á að morgni 20. nóvember 2013. Frásögn þeirra af efni símtalanna hefur verið misvísandi.