„Það er greinilegt að ákæruvaldið hefur ekki hugmynd um það hvernig upplýsingarnar sem fram komu í samantektinni rötuðu í hendur fjölmiðla þrátt fyrir margra mánaða ítarlega rannsókn. Ákærði getur af þessum sökum með engu móti áttað sig á því hver sú háttsemi er sem honum er gefin að sök.“ Þetta kemur fram í greinargerð Gísla Freys Valdórsson, sem ákærður er í lekamálinu svokallaða. Gísli Freyr, sem er í tímabundnu leyfi frá störfum sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra, lýsti yfir sakleysi sínu við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hann krafðist frávísunar málsins, og til vara að hann yrði sýknaður af öllum sakargiftum.
Gísli Freyr er ákærður fyrir að brjóta gegn þagnarskyldu í starfi með því að láta óviðkomandi í té upplýsingar sem koma fram í minnisblaði um Tony Omos.
Í greinargerð sinni gagnrýnir Gísli Freyr alla málsmeðferðina harðlega.
„Í ákæru er ekki tilgreint hverjum, einum eða fleiri, ákærði á að hafa veitt upplýsingar úr samantektinni enda ósannað að svo hafi hann gert, sbr. rökstuðning fyrir sýknukröfu. Er látið nægja að lýsa því að upplýsingarnar hafi verið látnar „óviðkomandi“ í té. Það koma því samkvæmt ákæru allir til greina sem viðtakendur svo fremi sem þeir teljast málinu „óviðkomandi“. Ákærði getur því ekki notast við hefðbundin úrræði til þess að verja sig eins og fyrr er nefnt. Að því er varðar frávísunarþátt málsins byggir ákærði á því að til þess að nokkur geti talist vera „óviðkomandi“ verði að liggja fyrir um hvern ræðir. Með öðrum orðum verður að liggja fyrir hver eða hverjir voru ætlaðir viðtakendur upplýsinganna.
Til að bíta höfuðið af skömminni hefur ákæran heldur ekki að geyma lýsingu á ætlaðri verknaðaraðferð. Í stað þess að útlista hvernig ákærði á að hafa veitt upplýsingar úr samantektinni, t.d. með afhendingu útprentaðs eða handritaðs eintaks, upplestri, fjarskiptum, mors-sendingum eða reykmerkjum er í ákæru notast við hina mjög svo almennu athöfn „að láta e-m e-ð í té“,“ segir í greinargerð Gísla Freys.
Lesa má greinargerð Gísla Freys í heild sinni á meðfylgjandi tengli. Greinargerd - Gisli Freyr