Gistináttaskattur, sérstakt gjald sem leggst ofan á hverja selda einingu næturgistingar, verður ekki innheimtur fyrr en árið 2024, samkvæmt því sem fram kemur í svokölluðum bandormi – frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum vegna fjárlagafrumvarps næsta árs.
Skatturinn var fyrst tekinn upp árið 2012 og hefur þann tilgang að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Skatturinn er nú 300 krónur fyrir hverja selda einingu næturgistingar á Íslandi. Áður en kórónuveirufaraldurinn skall á í upphafi árs 2020 hafði verið gert ráð fyrir því að skatturinn skilaði yfir 1,2 milljörðum króna í ríkissjóð.
En svo kom veiran og lét á sér kræla. Skatturinn var felldur niður tímabundið í einum af fyrstu aðgerðapökkunum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum veirunnar. Skatturinn átti hins vegar að óbreyttu að taka gildi á ný þann 1. janúar 2022, en það mun ekki gerast, samkvæmt fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar.
„Þar sem enn er mikill samdráttur í ferðaþjónustu og ófyrirséð er hve lengi samdrátturinn muni standa yfir er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt tímabundið og greiðsla og innheimta gistináttaskatts verði felld niður til og með 31. desember 2023. Framlenging á tímabundinni niðurfellingu gistináttaskatts mun skipta fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu í landinu verulegu máli,“ segir um þetta efni í nýju lagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Gistináttaskattur til sveitarfélaga í stjórnarsáttmála
Fjallað er stuttlega um gistináttagjaldið í nýjum stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem kynntur var á sunnudag. Þar segir að stefnt sé að því að endurskoða fyrirkomulag gjaldtöku í ferðaþjónustu heilt yfir, samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar eftir faraldurinn.
Stefnt er að því að „breikka skattstofninn“ í ferðaþjónustu og „tryggja jafnræði aðila á markaði“ auk þess að breyta fyrirkomulagi gistináttagjalds.
Þetta á að gera í samvinnu við greinina og sveitarfélög landsins, „með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni“.