Hagstofa Íslands áætlar að seldar gistinætur í júní hafi verið rétt tæplega 158 þúsund. Borið saman við sama mánuð í nemur aukning seldra gittanátta tæplega 75 prósentum en í júní 2020 voru 90.500 gistinætur seldar. Þrátt fyrir mikla aukningu eiga gististaðir enn langt í land með að ná tölum sambærilegum þeim sem tíðkuðust fyrir kórónuveirufaraldurinn, í júní 2019 voru seldar gistinætur 420.300.
Tölur Hagstofunnar fyrir nýliðinn júnímánuð eru bráðabirgðatölur sem byggja á fyrstu skilum og er 95 prósent öryggismörk fyrir matið 145.900 til 169.900 gistinætur. Bráðabirgðatölur fyrir maí voru lægri heldur en raunin varð en gert var ráð fyrir að gistinætur í maí hefðu verið um 90 þúsund (95 prósent öryggismörk 82.100 til 98 þúsund). Endanlegur fjöldi hótelgistinátta reyndist hins vegar vera 102.800 í maí síðastliðnum.
Sjöföldun á gistinóttum útlendinga milli ára
Miðað við þessar bráðabirgðatölur er áætlað að gistinætur Íslendinga á hótelum hafi verið rétt rúmlega 49 þúsund (95 prósent öryggismörk 41.500 til 56.900) í júní síðastliðnum. Gistinóttum Íslendinga hefur þar af leiðandi fækkað um hátt í 35 prósent á milli ára en í júní í fyrra far fjöldi seldra gistinátta til Íslendinga tæplega 75 þúsund.
Gistinætur til útlendinga hafa aftur á móti um það bil sjöfaldast. Í júní í fyrra voru þær rétt rúmlega 15 þúsund en í bráðabirgðatölum fyrir nýliðinn júnímánuð eru gistinætur útlendinga tæplega 109 þúsund (95 prósent öryggismörk 98.300 til 119.100). Líkt og áður segir eru þessar tölur ekki svipur hjá sjón samanborið við tölur fyrir gistinætur fyrir kórónuveirufaraldur. Í júní 2019 var fjöldi gistinátta útlendinga rúmlega 382 þúsund.
Samkvæmt sömu áætlun var rúmanýting í júní um 28,6 prósent (95 öryggismörk 26,4 prósent til 30,8 prósent. Nýtingin var 17,1 prósent í júní í fyrra en í sama mánuði árið 2019.
Ferðamönnum fer hægt og rólega fjölgandi
Aukningin í seldum gistinóttum til erlendra ferðamanna er til marks um þá aukningu sem orðið hefur á komum erlendra ferðamanna til landsins á síðustu vikum. Umsvifin hafa því eðli málsins samkvæmt aukist á Keflavíkurflugvelli en í vikunni greindi Isavia frá því á vef sínum að í fyrsta skipti í rúma 15 mánuði hefði fjöldi farþega sem fór um flugvöllinn farið yfir tíu þúsund á einum degi. Það hafði ekki gerst síðan 13. mars 2020 en degi síðar settu bandarísk yfirvöld ferðabann til Bandaríkjanna vegna COVID-19 og fækkaði farþegum um flugvöllinn hratt í kjölfarið.
Isavia sagði einnig frá því í síðari hluta júní að brottfarir Icelandair í einni og sömu vikunni hefðu verið yfir 100 talsins. Það var í fyrsta sinn síðan í mars í fyrra sem brottfarir félagsins voru svo margar í einni og sömu vikunni.
Félagið birti flutningatölur sínar fyrir júní í gær en þar kom fram að fjöldi farþega í millilandaflugi þrefaldaðist á milli maí og júní og voru alls 72 þúsund í mánuðinum samanborið við 22 þúsund í maí. Þá var aukningin á milli ára enn meiri en í júní í fyrra flutti félagið rúmlega 18 þúsund farþega í millilandaflugi. Líkt og með sölu hótelgistingar eru tölur flugfélagsins fyrir nýliðinn júní í engu samræmi við það sem var fyrir kórónuveirufaraldur. Í júní árið 2019 flutti flugfélagið rúmlega 550 þúsund farþega í millilandaflugi.