Gjaldeyriskaup Seðlabankans að undanförnu eru ákveðin viðbrögð við auknu fjármagnsinnflæði erlendis frá inn á skuldabréfamarkað. Krónunni er þannig ekki leyft að styrkjast með þessu aukna innflæði, sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri, á kynningarfundi stýrivaxtaákvörðunar í dag.
Már og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri voru á fundinum spurðir um boðaðar aðgerðir vegna svokallaðra vaxtarmunarviðskipta. Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í ágúst síðastliðnum greindi Már frá því að hafin sé vinna við þróun stýritækja sem eigi að draga úr miklum sveifum á inn- og útflæði gjaldeyris vegna slíkra viðskipta. Vaxtamunarviðskipti voru afar vinsæl á Íslandi fyrir hrun þar sem háir vextir löðuðu að erlenda fjárfesta. Eins og Kjarninn hefur greint frá þá má í dag greina aukinn áhuga erlendra fjárfesta á nýjan leik á íslenskum skuldabréfamarkaði. Í ágúst síðastliðnum jókst eign þeirra á ríkisskuldabréfum um 18 milljarða króna.
Már sagði að málin hafi mikið verið rædd í peningastefnunefndinni og einnig innan kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleikaráðs. En hvernig tækin verði hönnuð sé ekki einfalt og muni taka einhverja mánuði. Fyrst og síðast sé það mikilvægt að stýritækin verði til staðar þegar „tjöldunum er svipt frá“ og átti Már þá við þegar flæði fjármagns er ekki lengur bundið fjármagnshöftum.
Á fundinum í ágúst sagði Már að til greina kæmi að beita skatti eða bindiskyldu á vaxtamunaviðskipti.
Draga úr en eyða ekki sveiflum
Þá kom fram á fundinum að aukin gjaldeyriskaup Seðlabankans að undanförnu, sem ítrekað sló met í gjaldeyriskaupum í sumar, stafi af auknu innflæði fjármagns. Arnór Sighvatsson sagði að þrátt fyrir að bankinn leggist gegn innflæðinu með auknum kaupum þá styrkist krónan. Það sé óhjákvæmilegt að krónan styrkist við svo mikið innflæði vegna utanríkisviðskipta, auk þess sem fjármagnsinnstreymi hafi bæst við undanfarnar vikur. „Við erum að leggjast jafnt þungt ef ekki þyngra en áður, en það er bara meiri straumur,“ sagði Arnór um gjaldeyriskaup bankans. Hann sagði bankann vilja draga úr sveiflum á gjaldeyrismarkaði en ekki eyða þeim.