Andrea Sóleyjar og Björgvinsdóttir, eða Andrea ofurneytandi eins og áhorfendur Ferðar til fjár þekkja hana, leitaði sér að nýjum bíl í síðasta þætti. Eins og fyrr þá var Aðalsteinn Leifsson, sérfræðingur í samningatækni, Andreu til ráðgjafar og veitti henni góð ráð.
„Það sem gerist oft í bílakaupum er að fólk verður ástfangið af tilteknum bíl. Það verður að eignast þennan ákveðna bíl. Þegar við erum komin með þá tilfinningu að við verðum að eignast hlutinn, þá erum við oft tilbúin að gera nánast hvað sem er til þess að eignast hann. Þá hverfur okkar samningsstaða út um gluggann,“ sagði Aðalsteinn.
Lausnin væri sú að hafa alltaf nokkra valmöguleika. „Ef við getum leyst okkar þarfir með því að kaupa ólíka bíla, þá batnar samningsstaða okkar til muna. Í öllum samningsviðræðum sem þú vilt fara í, þá áttu að hafa ólíka valmöguleika. Við reynum að semja við tvo eða þrjá á sama tíma, og þar er allt algjörlega uppi á borðinum og við gerum það heiðarlega. Því lengra sem við komumst með einum seljanda, því betri samningsstöðu höfum við að semja við hinn.“
Bölvun sigurvegarans
Áður en Andrea hélt úti á bílasölu, þá útskýrði Aðalsteinn hvernig það geti gerst að eigandi bílsins verði ánægðari en ella ef hún borgar minna fyrir bílinn. Slíkt kallist bölvun sigurvegarans og geti gerst þegar maður samþykkir strax tilboðið sem býðst. Til dæmis, ef eigandi bílsins vill fá 1,1 milljón fyrir hann, og kaupandinn segir um hæl: „Frábært, ég tek hann,“ þá getur sú tilfinning setið í seljandanum að hann hefði getað fengið hærra verð fyrir bílinn – bölvun sigurvegarans.
Andrea hélt út á bílasölu. Hún vildi finna bíl sem hentar henni og börnunum þremur, vinum þeirra, farangri og hverju öðru sem fjölskyldubíll þarf að ferja. „Sjö manna strumparúta með stórri hurð“ var bíllinn sem Andrea leitaði að, en hún hefur fram til þessa keyrt bíl foreldra sinna. Hún rifjaði upp ráð Aðalsteins: Að vita hversu mikið hún er tilbúin að borga fyrir bílinn og hversu mikið hún getur farið út fyrir þá upphæð.
Fyrsti bílinn sem Andrea sá var sjö manna strumparúta sem kostaði 990 þúsund krónur. Hinn bílinn sem hentaði var af sömu gerð, árinu yngri og á tilboðsverði, 1.490 þúsund krónur í stað 1.650 þúsund áður. Með falda myndavél fór hún og ræddi við bílasölumennina og bauð 580 þúsund í fyrri bílinn, eða 410 þúsund krónum lægra en ásett verð. Hún hafði í huga að borga allt að 700 þúsund fyrir bílinn, en að ráði Aðalsteins bauð hún töluvert lægra verð, eða 580 þúsund. Viti menn, eigandinn samþykkti tilboðið símleiðis, og Andrea upplifði bölvun sigurvegarans!
Henni leið aðeins betur þegar í ljós kom að eigandinn hafði hringt og ætlað að hætta við, honum þótti tilboðið of lágt en stóð þó við það ef Andrea væri áhugasöm.
Þess ber að geta að Andrea keyrir enn um á bíl foreldra sinna. Það er kannski besta sparnaðarleiðin eftir allt saman?
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 5. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.