Líklegt er að útflutningur verði meiri í ár heldur en búist var við í vor, auk þess sem einkaneysla mun aukast hratt. Hins vegar gætu lakari horfur í ferðaþjónustu og áætlun um minni þorskafla skapað bakslag í útflutningi á næsta ári. Þetta skrifar Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom út á föstudaginn.
Í grein sinni fer Þórarinn yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum hérlendis og dregur hann saman helstu niðurstöður úr síðasta hefti Peningamála, sem kom út í lok ágúst. Samkvæmt þeim hafa innlendar efnahagshorfur batnað á síðustu mánuðum, en þar vegur þungt örari fjölgun ferðamanna í sumar en gert var ráð fyrir.
Hagstæð skilyrði í ár en verri horfur á næsta ári
Þórarinn segir að ferðamenn hafi verið fleiri í sumar heldur en gert hafði verið ráð fyrir, en bætir þó við að talið sé að fjölgun smita og staða Íslands á rauðum lista hjá sóttvarnarstofnun Evrópu dragi heldur úr fjölgun þeirra þegar líða tekur á haustið. Þó býst Seðlabankinn við að 680 þúsund ferðamenn komi til landsins í ár, sem er meira en í fyrra.
Til viðbótar við aukna virkni í ferðaþjónustunni nefnir Þórarinn að útlit sé fyrir töluvert meiri útflutning sjávarafurða í ár, vegna hagstæðrar loðnuvertíðar. Einnig eru bættar horfur fyrir útflutning kísiljárns og eldisfisks, auk þess sem álverð hefur hækkað mikið og viðsnúningur hefur orðið í verði á sjávarafurðum. Hins vegar býst bankinn við minni útflutningi á næsta ári en hann gerði í vor, meðal annars vegna lakari horfa í ferðaþjónustu og áætlun um minni þorskafla.
Samkvæmt Þórarni eru heimili og fyrirtæki nú orðin færari en áður í að halda efnahagsstarfsemi sinni gangandi samhliða sóttvarnaraðgerðum. Sökum þessarar aukinnar aðlögunarhæfni og minna íþyngjandi aðgerðum er útlit fyrir kröftugan bata í einkaneyslu í ár. Horfur eru á að neyslan aukist um rúm fjögur prósent á árinu, en búist er svo við enn meiri vexti á næstu tveimur árum.
Slakinn breytist í spennu á næsta ári
Samhliða aukinni einkaneyslu og útflutningi segir Þórarinn að mælingar Seðlabankans sýni skýrt minnkandi slaka í þjóðarbúskapnum þessa stundina. Hann bendir einnig á sumarkönnun Gallup á meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins, en samkvæmt henni vilja tæp 40 prósent fyrirtækja fjölga starfsfólki á meðan aðeins 8 prósent þeirra vilja fækka því. Sömuleiðis sýnir fyrirtækjakönnun Hagstofunnar að lausum störfum og fyrirtækjum sem búa við skort á starfsfólki hafi fjölgað mikið, en samkvæmt honum er batinn mestur í ferðaþjónustu, verslun og byggingastarfsemi.
Hins vegar segir Þórarinn að slakinn sé ekki horfinn úr hagkerfinu, enn séu framleiðsluþættir vannýttir. Þó telur hann að framleiðsluslakinn sem nú er til staðar muni breytast í spennu í lok næsta árs.
Hægt er að lesa grein Þórarins í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.