Brasilíska goðsögnin Ronaldo, sem í þrígang var valinn knattspyrnumaður ársins í heiminum hjá FIFA, þar á meðal í tvígang áður en hann náði tuttugasta og öðru aldursári, hefur hug á því að snúa aftur í atvinnumannafótbolta með Fort Lauderdale Strikers (FLS), í Norður-Ameríku deildinni NASL. Í viðtali við vef FLS, sem vefsíðan 101greatgoals.com vitnar til, segist Ronaldo ætla að æfa meira á þessu ári en hann hefur gert á síðustu árum. „Ég hef verið svo upptekinn við að gera annað undanfarin ár, en ég ætla að æfa meira á þessu ári[...]Ég mun reyna að spila einhverja leiki,“ segir goðsögnin.
Ronaldo er sjálfur eigandi að 10 prósent hlut í félaginu, og hefur stutt myndarlega við markaðsstarf félagsins að undanförnu. Hann stendur meðal annars fyrir degi sem tileinkaður er aðdáendum FLS, hinn 17. janúar næstkomandi.
Ronaldo er almennt álitinn einn allra besti framherji sögunnar, en hann er næst markahæsti leikmaður í sögu úrslitakeppni HM á eftir Þjóðverjanum Miroslav Klose, með 15 mörk. Meiðsli settu strik í reikninginn á mögnuðum ferli hans, og þurfti hann meðal annars í þrígang að vera frá í meira en árslangan tíma sökum alvarlegra hnémeiðsla. Á árunum 2000 til 2002 var hann frá keppni í tæplega tvö ár, en snéri aftur fyrir HM 2002 í Japan og Suður-Kóreu og endaði sem markahæsti leikmaður keppninnar með átta mörk og heimsmeistari með sterku liði Brasilíu.
Hann er fæddur 1976, og var kjörinn leikmaður ársins hjá FIFA árin 1996 og 1997, en hann var þá leikmaður Barcelona og Inter á Ítalíu. Hann var einnig valinn leikmaður ársins hjá FIFA árið 2002. Ronaldo skoraði 62 mörk í 98 landsleikjum fyrir Brasilíu og varð heimsmeistari með liðinu 1994 og 2002. Ferilinn í Evrópu hóf hann hjá PSV Eindhoven, á sama tíma og Eiður Smári Guðjohnsen lék með liðinu, og lék síðan með Barcelona, Inter Mílanó, Real Madrid, AC Milan og Corinthians. Hann hætti að leika sem atvinnumaður árið 2011.
Ronaldo lék sinn fyrsta landsleik í æfingaleik með Brasilíu gegn Íslendingum árið 1994. Óhætt er að segja að hann hafi reynst íslenska liðinu erfiður.
https://www.youtube.com/watch?v=offjaRabr40