Goldman Sachs, einn stærsti banki heimsins, hyggst stórefla lánveitingar í gegnum netið, einkum smærri upphæðir til fjölskyldufólks, fyrir viðhaldsverkefni og endurskipulagningu skammtímaskulda. Með þessum aðgerðum hyggst bankinn horfa meira til þess að þjónusta almenning í Bandaríkjunum, frekar en fyrirtæki og efnameiri einstaklinga, sem hefur verið hans aðalsmerki í 146 ára sögu bankans.
Í stuttu máli hyggst bankinn hefja lánveitingar á upphæðum sem nema að hámarki um fimm til tuttugu þúsund Bandaríkjadölum, eða sem nemur um 660 þúsund til 2,6 milljóna króna. Þjónustan verður alfarið á netinu, og er markmið bankans að taka þátt í virkri samkeppni viðskiptabanka í Bandaríkjunum um lánveitingar til almennings.
Frá þessu er greint í New York Times í dag. Bankinn réð Harit Talwar, fyrrverandi forstjóra kortafyrirtækisins Discover, til þess að leiða verkefnið, en búist er við því að þjónustan verði í boði seinna á þessu ári eða seint á því næsta.
Goldman Sachs er með risavaxinn efnahag, og starfsstöðvar um allan heim. Heildareignir bankans námu 856 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra, eða sem nemur um 113 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur um sextíufaldri árlegri landsframleiðslu Íslands.