Tölvurisarnir Apple og Microsoft eru tvö verðmætustu vörumerki (Brand) í heimi, samkvæmt lista Forbes. Vörumerki Apple er verðmetið á 145,3 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega nítján þúsund milljörðum. Á eftir Apple kemur Microsoft en virði þess er metið á 69,3 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um níu þúsund milljörðum.
Skammt á eftir Microsoft kemur Google með 65,6 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 8.500 milljörðum króna. Hið rótgróna vörumerki Coca Cola kemur síðan næst þar á eftir, með 56 milljarða Bandaríkjadala, um 7.200 milljörðum króna, og annar tölvurisi, IBM, er síðan í fimmta sæti en virði þess vörumerkis er áætlað 49,8 milljarðar Bandaríkjadala, um 6.400 milljarðar króna.
Til samanburðar má nefna, þá nam árleg landsframleiðsla Íslands rúmlega 1.900 milljörðum króna í fyrra. Virði vörumerkis Apple, samkvæmt mati Forbes, nemur því um tífaldri árlegri landsframleiðslu Íslands.