Google hefur ráðist mestu útlitsbreytingar á vörum sínum frá stofnun. Í dag breytti fyrirtækið merki sínu og eru það mestu breytingar á merkinu frá stofnun fyrirtækisins árið 1998. Nýja merkið skartar nýju steinskriftarletri og kemur í stað hins hefðbunda merkis sem studdist við antíkvu.
Breytingarnar koma í kjölfar þess að nafni fyrirtækisins sem rekur Google var breytt í Alphabet til að aðgreina leitarvélina frá miklu víðtækari starfsemi fyrirtækisins. Kjarninn greindi frá nafnabreytingunni í ágúst. Stofnendur Google, þeir Larry Page og Sergey Brin, segjast vona að breytt skipulag gefi þeim frelsi til að sækja fram í tækninýjungum.
Page útskýrir Alphabet sem samansafn fyrirtækja. Þeirra stærst verður Google með leitarvélina, Maps kortið, Android stýrikerfið, Youtube og fleira innanborðs. Þá verður tækniþróunarfélagið X Lab rekið sem sérstök eining undir Alphabet en félagið hefur til þessa kallast Google X og meðal annars þróað sjálfkeyrandi bíla. Í póstinum tiltekur Page sérstaklega þróun X Lab á drónum. Fjárfestingasjóðirnir Venture og Capital verða reknir sem sérstök dótturfélög Alphabet.
Nýja leturgerðin hefur verið kölluð Product Sans og, samkvæmt tilkynningu frá Google, byggir á hugmyndum úr barnaskólabókum en heldur hlutleysi sínu. Nýja merkið er heldur ekki lengur föst mynd heldur er hún hreyfanleg í takt við nútíma vefþróun. Notendur þjónustu Google munu á næstunni sjá útlit appa, vefsíða og merkja breytast í takt við þetta.
[embed]https://youtu.be/olFEpeMwgHk[/embed]