„Ég hef um langt árabil fært rök fyrir því að afnema eigi með öllu skerðingar vegna atvinnutekna í almannatryggingakerfinu, bæði fyrir öryrkja og eftirlaunafólk. Þannig er það í Noregi og Svíþjóð og Danir skerða mun minna en við vegna atvinnutekna.“
Þetta skrifar Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu, í færslu á Facebook í dag.
Kjarninn greindi frá því í dag að Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra teldi að það ætti að minnka eða afnema skerðingar vegna atvinnutekna til þess að mæta skorti á starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði. „Ég veit að þetta er mjög róttækt,“ sagði ráðherrann um tillögu sína.
Þetta á að framkvæma strax og vera varanlegt
Stefán segir að það sé gott hjá ráðherranum að taka af skarið með þetta mál. „Það er hins vegar rangt hjá Lilju að þetta sé róttæk aðgerð og að hún ætti að vera tímabundin,“ skrifar hann.
Hann segir jafnframt að þessi aðgerð sé ekki róttækt því þessar skerðingar þjóni engum skynsamlegum tilgangi. „Þær eru einungis til að gera lágtekju-lífeyrisþegum erfiðara fyrir með að bjarga sér með atvinnuþátttöku. Þær eru stór hluti af þeirri fátæktargildru sem er í almannatryggingakerfinu.
Og skerðingar vegna atvinnutekna spara rikinu ekki útgjöld sem neinu nemur. Raunar gæti aukin atvinnuþátttaka skilað ríkinu auknum skatttekjum umfram það sem tapast við afnám skerðinganna. Þetta á því að framkvæma strax og vera varanlegt,“ skrifar hann og bætir því við að einnig þurfi að draga úr skerðingum vegna lífeyrissjóðstekna.
GOTT HJÁ LILJU ALFREÐS! Ég hef um langt árabil fært rök fyrir því að afnema eigi með öllu skerðingar vegna atvinnutekna...
Posted by Stefán Ólafsson on Thursday, June 16, 2022