Lítill munur er á greiðslubyrði húsnæðislána á höfuðborgarsvæðinu nú og fyrir faraldurinn, en hún hefur aukist töluvert á síðustu mánuðum vegna vaxta- og verðhækkana á fasteignamarkaðnum. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem kom út í morgun.
Kaupverð í sérbýli hækkað um 22 prósent
Samkvæmt skýrslunni nam meðalkaupverðið á íbúð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu 58 milljónir króna í nóvember, og hefur það hækkað um tvær milljónir króna frá því í sama mánuði árið áður. Hækkunin var enn meiri hjá íbúðum í sérbýli, en verð þeirra fór úr 80,2 milljónum króna í 98 milljónir á einu ári.
Sem fyrr er kaupverðið á fasteignum langhæst á höfuðborgarsvæðinu, en dregið hefur úr muninum á verðinu í höfuðborginni og nágrannasveitarfélögum þess á síðustu mánuðum. Meðalkaupverðið á Suðurlandi og Suðurnesjum nam tæpum 45 milljónum króna í nóvember, á meðan íbúðir á vesturlandi seldust fyrir tæpar 40 milljónir króna. Lægst var kaupverðið á Vestfjörðum þar sem íbúðir seldust að meðaltali fyrir 23 milljónir króna.
Minni greiðslubyrði en 2019
HMS segir lágt vaxtastig vera einn af þeim þáttum sem hafa haft hvað mest áhrif á þróun íbúðaverðs frá upphafi COVID-19 faraldursins. Með vaxtalækkunum Seðlabankans, sem hófust árið 2019, hafi greiðslubyrðin á húsnæðislánum minnkað til muna, sérstaklega ef tekið er tillit til verðbólgu yfir tíma.
Í kjölfar heimsfaraldursins snarminnkaði svo greiðslubyrðin í kjölfar þess sem Seðlabankinn lækkaði vexti sína um 2,25 prósentustig á nokkrum mánuðum. Á fyrri hluta síðasta árs var því mun auðveldara að standa straum af útborgunum af íbúð en áður, þrátt fyrir að íbúðaverð væri í örum vexti á þeim tíma.
Á síðustu mánuðum hefur hafa svo þrálátar verðhækkanir, til viðbótar við vaxtahækkanir Seðlabankans, farið að segja til sín og er nú nær öll minnkunin í greiðslubyrði á lánum fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu gengin til baka. Greiðslubyrðin er enn 13,7 prósentum minni en hún var á toppi uppsveiflunnar á íbúðamarkaði árið 2019, en er nú komin á svipaðar slóðir og hún var á fyrir faraldurinn.
Lífeyrissjóðir með endurkomu á lánamarkað
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður jókst ásókn í húsnæðislán hjá lífeyrissjóðunum í nóvember, í fyrsta skipti frá því í maí 2020. Í þeim mánuði fóru sjóðirnir að bjóða upp á vexti á lánunum sem voru samkeppnishæfir við lánakjör bankanna.
Samkvæmt HMS voru lægstu óverðtryggðu vextirnir ekki hjá viðskiptabönkunum í nóvember í fyrra, heldur hjá lífeyrissjóðunum. Hjá bönkunum var hægt að fá húsnæðislán á rúmlega fjögurra prósenta vöxtum, en bestu vaxtakjör hjá lífeyrissjóðunum voru í kringum 3,5 prósent.