Greiðslukröfurnar sem sendar voru út í morgun frá Flóttamannahjálp Íslands, áhugamannafélagi upp á 990 krónur hver voru sendar fyrir mistök af hálfu áhugamannafélagsins. Alls voru 62.080 greiðslukröfur sendar úr útibúi Landsbankans í heimabanka viðskiptavina viðskiptabankanna þriggja og þær merktar „Félagsgjöld“.
Kjarninn sagði frá því í dag að fjölmargir hefðu fengið slíkar kröfur en enginn sem ritstjórn Kjarnans ræddi við kannaðist nokkuð við að hafa óskað eftir að aðild að áhugamannafélaginu. Í fyrirtækjaskrá segir um Flóttamannahjálp Íslands - áhugamannafélag að tilgangur þess sé „Alþjóðlegt hjálparstarf á Íslandi í Malaví, Sierra Leone, Palestínu, Kenía, Haítí og í Hvíta-Rússlandi auk þess sem félagið veitir neyðaraðstoð í kjölfar hamfara hvar sem er í heiminum þegar kemur að vatns skorti sem er á við neyð. Börn munu ávallt vera í forgangi í okkar hjálp, flóttafólk í neyð.“
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum voru aðeins örfáir búnir að borga kröfurnar, eða um 30 manns. Búið er að fá leyfi frá félaginu til að bakfæra greiðslurnar og ætlar bankinn að sjá til þess að þeir sem greiddu verði upplýstir um málið. Um leið og bankinn frétti af þessu hafi verið farið í að leiðrétta mistökin.
Ekki hefur náðst í forsvarsmann áhugamannafélagsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Flóttamannahjálp Íslands, áhugamannafélag var stofnað í janúar 2014. Hvorki UNICEF né Rauði kross Íslands hafa nokkru sinni heyrt um þetta félag. Bókhaldsdeild Rauða krossins hefur borist mörg símtöl í dag þar sem spurt er hvort greiðslukrafan sé á vegum Rauða krossins. Í kjölfar þess að Kjarninn hafði samband birtust tilkynningar á samfélagsmiðlum Rauða krossins um að þessar kröfur beri að varast.