Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, fékk samtals 68,6 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóð í fyrra, eða 5,7 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Á árinu 2020 fékk hún 60,3 milljónir króna í laun eða um fimm milljónir króna á mánuði.
Munurinn á launum milli ára skýrist af sérstakri 10,9 milljón króna greiðslu vegna yfirvinnu sem Birna fékk í tengslum við undirbúning hlutafjárútboðs og skráningar Íslandsbanka á markað í fyrrasumar. Án hennar hefðu hefðu heildarlaun Birnu lækkað um 2,6 milljónir króna milli ára.
Þetta kemur fram í ársreikningi Íslandsbanka sem birtur var í gær. Íslenska ríkið er stærsti eigandi bankans með 65 prósent eignarhlut.
Fékk bónusgreiðslu
Allir bankastjórar stóru bankanna fengu hærri greiðslur frá atvinnurekanda sínum í fyrra en á árinu 2020. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, var með 69,8 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóð í fyrra, eða 5,8 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Arion banki hefur hins vegar innleitt kaupauka- og kaupréttarkerfi sem umbunar starfsfólki umtalsvert.
Samkvæmt kaupréttaráætlun Arion banka geta allir fastráðnir starfsmenn keypt hlutabréf í bankanum fyrir 1,5 milljón króna einu sinni ári í fimm ár. Þau kaup fara fram á genginu 95,5 krónur, en markaðsvirði Arion banka er 98 prósent yfir því gengi í dag. Það þýðir að bréfin sem starfsmaður kaupir á 1,5 milljónir króna eru þriggja milljón króna virði.
Arion banki er eini kerfislega mikilvægi bankinn sem íslenska ríkið á ekki hlut í. Stærstu eigendur bankans eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Með 4,5 milljónir á mánuði
Laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hækkuðu um 3,2 milljónir króna í fyrra og voru 45,4 milljónir króna. Það þýðir að hún var með 3,8 milljónir króna í mánaðarlaun að meðaltali sem er um 263 þúsund krónum hærri laun á mánuði en hún hafði að meðaltali á mánuði á árinu 2020. Laun hennar hækkuðu því um sjö prósent milli ára.
Auk launa og hlunninda (sem í felast til að mynda afnot af bifreið í eigu bankans) fékk Lilja greitt mótframlag í lífeyrissjóð upp á 8,7 milljónir króna, eða 725 þúsund krónur á mánuði að meðaltali. Mótframlagsgreiðslur hennar hækkuðu um 8,8 prósent milli ára.
Samtals fékk Lilja því 54,4 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóðs á síðasta ári, eða rúmlega 4,5 milljónir króna á mánuði.
Landsbankinn er í eigu íslenska ríkisins.
Allir stóru bankarnir þrír hafa nú birt ársreikninga sína vegna ársins 2021. Samanlagður hagnaður þeirra á því ári var 81,2 milljarðar króna. Á árinu 2020 högnuðust þeir um tæpa 30 milljarða króna. Því var hagnaður þeirra á síðasta ári 170 prósent meiri en á árinu 2020.