Grikkir hafa formlega sent Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tillögu að sex mánaða framlengingu sem á að koma í stað núgildandi samkomulags, sem rennur út um mánaðamótin. Jeroen Dijsselbloem, forseti evruhópsins, staðfesti þetta í morgun. Hann boðaði einnig til fundar í hópnum á morgun vegna málsins.
Received Greek request for six months extension.
— Jeroen Dijsselbloem (@J_Dijsselbloem) February 19, 2015
#Eurogroup Friday in Brussels as of 15.00.
— Jeroen Dijsselbloem (@J_Dijsselbloem) February 19, 2015
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, segir tillöguna vera jákvætt skref, sem gæti orðið grundvöllur fyrir sanngjarnri málamiðlun. Þetta sagði talsmaður framkvæmdastjórnarinnar um hádegið. Nú væri framhaldið í höndum evruhópsins.
Tillaga Grikkja felur í sér framlengingu á lánasamningnum við ESB og AGS, en ekki framlengingu á þeim skilmálum sem þeir þurftu að gangast undir til þess að fá lánin. Grikkir telja þessa skilmála, niðurskurð, skattahækkanir og ýmsar umbætur, hafa gert illt verra í Grikklandi undanfarin ár. Samkomulagið hefur þó komið í veg fyrir að Grikkland verði gjaldþrota frá árinu 2010, en það rennur út eftir níu daga.
Fjármálaráðherrar evruríkjanna, evruhópurinn svokallaði, höfðu gefið stjórnvöldum í Grikklandi frest þangað til á morgun til að samþykkja framlengingu á núverandi lánasamningi og þeim aðhaldsaðgerðum sem krafa hefur verið gerð um. Evruhópurinn fundar sem fyrr segir í Brussel á morgun, en það verður þriðji fundurinn á tíu dögum um málið.
Yanis Varoufakis fjármálaráðherra og Alexis Tsipras forsætisráðherra.
„Ég trúi því að tillagan sé fullnægjandi fyrir Grikki og fyrir forseta evruhópsins,“ sagði Yanis Varoufakis fjármálaráðherra Grikklands í gærkvöldi.
Seðlabanki Evrópu samþykkti í gærkvöldi viðbótarneyðarlán til Grikkja upp á 3,3 milljarða evra, til viðbótar við þá 65 milljarða sem þegar hafa verið veittir. Sú fjárhæð er nærri uppurin. Nú er rætt hvort stjórnendur bankans ættu að stöðva fjármagnið til Grikklands til að neyða Grikki til að samþykkja kröfur evruhópsins. Stjórn bankans var ekki einhuga um að veita viðbótarlánið, en niðurstaðan var sú á endanum að það væri ekki hlutverk bankans að kenna Grikkjum einhvers konar lexíu, heldur viðhalda stöðugleika í Evrópu.
Sá hluti samkomulagsins sem rennur út um mánaðamótin eru lánin við Evrópusambandið og Seðlabanka Evrópu. Ef ekki semst á þessum níu dögum verður mikill þrýstingur á Seðlabanka Evrópu að stöðva neyðarlánin til grískra banka. Það gæti valdið svo miklu álagi á fjármálakerfið að í versta falli þyrftu Grikkir að yfirgefa evruna og fara að prenta eigin peninga. Ef það gerist gætu ESB-ríkin setið uppi með tapið af lánum sínum til Grikklands. Grískur gjaldmiðill myndi strax falla í verði með þeim afleiðingum að flestar innfluttar vörur myndu hækka. Það gæti haft hræðileg áhrif á samfélag þar sem fátækt hefur aukist mikið, meðalinnkoma hefur minnkað um þriðjung og einn af hverjum fimm er án vinnu.