Grikkir ætla ekki að borga Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,6 milljarð evra í þessum mánuði eins og þeir eiga að gera ef ekki verður búið að semja um áframhaldandi neyðarlán til þeirra. Seðlabanki Grikklands varar við því að ef ekki semst verði greiðslufall hjá Grikkjum og þá muni þeir segja sig úr evrunni og Evrópusambandinu.
Núverandi samkomulag Grikklands við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn rennur út 30. júní og á sama tíma eiga þeir að endurgreiða AGS.
Þá eru Grikkir farnir að taka út evrur úr bönkunum vegna ástandsins sem komið er upp. „Allir eru að gera þetta. Vinir okkar eru búnir að þessu. Enginn vill að peningarnir þeirra verði verðlausir á morgun. Enginn vill lenda í því að geta ekki náð í peningana,“ segir Joanna Christofosaki í viðtali við Guardian. Viðtalið var tekið fyrir framan hraðbanka í Kolonaki-hverfinu í Aþenu. Hún segist þekkja fjölda fólks sem búið sé að fela 10 þúsund evrur á heimilum sínum og margir til viðbótar feli peninga á vinnustaðnum.
Innistæður í grískum bönkum hafa farið stöðugt lækkandi síðan í október og hafa ekki verið lægri síðan árið 2004. Undanfarnar vikur hafa 200 til 250 milljónir evra verið teknar út á hverjum degi, en á mánudaginn, eftir að greint var frá því að viðræðum við lánardrottna hefði verið hætt, voru teknar út 400 milljónir evra á einum degi. Að hluta til óttast fólk að sett verði á gjaldeyrishöft eins og gert var á Kýpur, þar sem fólk mun ekki geta tekið út nema mjög takmarkað magn af peningum í einu.