Grikkir náðu að borga 200 milljóna evra endurgreiðslu af lánum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag. Merki þykja um það að samningaviðræður um aukin neyðarlán til Grikkja séu að skila árangri.
Grikkir eiga að borga mun stærri afborgun af lánum sínum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þriðjudaginn í næstu viku, 770 milljónir evra. Útlit er fyrir að þeir muni eiga í talsverðum erfiðleikum með að greiða þá afborgun, auk þess sem síðar í þeirri viku þarf að standa skil á greiðslum lífeyris og launa opinberra starfsmanna.
Grikkir þurfa 7,2 milljarða evra frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en enn er verið að semja um skilyrði þessa neyðarláns. Lítið hefur gengið í þessum viðræðum undanfarna mánuði en að sögn ónefndra embættismanna í Brussel, sem AP fréttastofan ræddi við í dag, hefur loksins rofað eitthvað til í viðræðunum. Ákveðið var á símafundi forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, og Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, að halda viðræðunum áfram á morgun. Þeir sögðu svo í sameiginlegri yfirlýsingu að þeim hefði orðið nokkuð ágengt í viðræðum undanfarinna daga.
Meðal þeirra umbóta sem Grikkir eiga að ráðast í til að fá neyðarlán eru breytingar á lífeyrissjóðakerfinu og vinnumarkaðnum.
Grísk stjórnvöld hafa þegar skipað opinberum stofnunum og sveitarfélögum að flytja varasjóði sína inn á reikning í seðlabanka Grikklands, þar sem hægt verði að nota féð sem lán til ríkisins.