Samkomulag milli grískra stjórnvalda og kröfuhafa Grikklands um veitingu neyðarláns náðist í nótt eftir langa fundarsetu. Eftir 23 klukkustunda samningaviðræður lágu skilmálar lánsins fyrir. Euclid Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands, sagði við fjölmiðla eftir fundinn að aðeins ætti eftir að ganga frá tveimur til þremur atriðum. Að öðru leyti liggi samningur um þriðja neyðarlánið til Grikklands fyrir. Samkvæmt umfjöllun The Guardian er búist við að Grikkland fái nýtt 86 milljarða evra lán, en það hefur ekki verið staðfest endanlega.
Lántakan, og þau ströngu skilyrði sem henni fylgja, verða tekin fyrir á gríska þinginu á morgun og fimmtudag, samkvæmt áætlun. Á föstudag munu fjármálaráðherrar evruríkjanna síðan yfirfara endanleg samningsdrög.
Mikilvægt er að Grikkjum sé veitt lánið fyrir 20. ágúst. Þá fellur 3,2 milljarða evra lánagreiðsla frá Seðlabanka Evrópu á gjalddaga.