Grísk stjórnvöld, með Syriza flokkinn í broddi fylkingar, hafa lagt fram tilboð á borðið í samningaviðræðum við Evrópusambandið sem felur í sér sex mánaða framlengingu á 240 milljarða evra efnahagsáætlun landsins, sem unnið er samkvæmt í samvinnu við Evrópusambandið, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Syriza flokkurinn vann mikinn kosningasigur 25. janúar síðastliðnn og tók við stjórn landsins, en stærsta mál flokksins í kosningabaráttunni, var að taka upp efnahagsáætlun landsins, í reynd að hætta að vinna eftir henni og semja við lánadrottna landsins á nýjan leik. Helsta skilyrðið var að tengja greiðslubyrði lána við hagvaxtarþróun í landinu, og stöðvar niðurskurðaráform hjá hinu opinbera, sem og eignasölu þess.
Samningaviðræður Grikkja og fjármálaráðherra Evrópusambandsins hafa ekki gengið eins og stjórnvöld í Grikklandi ætluðu, miðað við það sem lagt var upp með í kosningabaráttunni og eftir kosningar. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, lét hafa eftir sér í gær, að Grikkir myndu ráða sínum örlögum sínum sjálfir en þá þegar hafði verið boðað til atkvæðagreiðslu í gríska þinginu um áframhald efnahagsáætlunarinnar.
Heildarskuldir Grikklands nema 323 milljörðum evra, um 48 þúsund milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum sem breska ríkisútvarpið BBC tók saman. Íbúar landsins eru ríflega ellefu milljónir en atvinnuleysi mælist þar nú 25,8 prósent, samkvæmt nýlega uppfærðum tölum hagstofu Evrópu, Eurostat. Þar af eru 60 prósent þeirra gagnvart Evrópusambandinu, tíu prósent gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sex prósent gagnvart Seðlabanka Evrópu og afgangurinn, 23 prósent gagnvart erlendum bönkum, grískum bönkum og sjóðum, þar á meðal bandarískum vogunarsjóðum.