Grikkir búa sig nú undir möguleikann á gjaldþroti ríkisins, samkvæmt nýjustu fréttum. Ríkið þarf nauðsynlega að fá aukið fjármagn frá lánardrottnum sínum en samningaviðræður þess efnis hafa ekki borið árangur enn.
Ef stjórnvöld fá ekki næsta skammt af neyðarlánum fyrir 24. apríl aukast líkurnar á greiðslufalli töluvert. 24. apríl er áætlaður fundur í evruhópnum svokallaða, fundi fjármálaráðherra evruríkjanna. Upphæðin sem Grikkir ættu að fá nemur 7,2 milljörðum evra.
Financial Times greinir frá því í dag að ekki aðeins sé algjört greiðslufall að verða líklegri kostur í stöðunni heldur virðist sem stjórnvöld séu farin að gera áætlanir um gjaldþrot. Stjórnvöld báru þessar fregnir þó til baka, en miðað við stöðuna í landinu þykir mörgum ólíklegt annað en að þessi möguleiki sé í það minnsta í skoðun.
FT hefur eftir heimildarmönnum, sem hafa fengið kynningu á stöðu mála hjá stjórnvöldum, að ef ekki tekst að semja við Evrópusambandið, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir lok apríl verði greiðslufalli ríkisins lýst yfir.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða þá ekki 2,5 milljarða evra endurgreiðslur til AGS í maí og júní, ef til þessa kemur. Stjórnvöld eru óðum að verða uppiskroppa með fé til að borga opinberum starfsmönnum laun og lífeyri. „Við erum komin á endastöð...ef Evrópa greiðir ekki neyðarlán þá er enginn annar valkostur,“ hefur FT eftir embættismanni á vegum ríkisstjórnarinnar.
Viðræður um áframhaldandi aðstoð ESB og AGS við Grikki eru hafnar á nýjan leik, en hafa ekki verið mjög árangursríkar hingað til. Þá er vert að hafa í huga að sú aðstoð sem nú er samið um er eingöngu tímabundin og átti að brúa fjögurra mánaða bil. Jafnvel þótt samið verði verður sama staða komin upp aftur innan skamms.