Grikkir þurfa nánast að afsala sér fjárhagslegu fullveldi sínu, og ráðast í umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir og einkavæðingu, ætli þeir að forða sér frá gjaldþroti og hanga inni í evrusamstarfinu. Þetta kemur meðal annars fram í tillögu að samkomulagi um skuldavanda Grikklands sem sett var saman á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í dag. The Guardian fjallar um málið. Náist samkomulag þurfa Grikkir líklega á bilinu 82-86 milljarða evra samkvæmt tillögu ráðherranna.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Francoise Holland, Frakklandsforseti, kynntu Alexis Tsipras, forseta Grikklands, skilyrðin fyrir tugmilljarða evra neyðarláni til handa Grikkjum, á fundi í Brussel í dag. Merkel og Hollande gengu hart fram gegn Tsipras í dag um að hann ábyrgðist að staðið verði við samkomulagið ef af því verður.
Ef Grikkir ganga ekki að skilyrðunum fyrir neyðarláninu, mun þjóðin ganga tímabundið út úr evrusamstarfinu á meðan gríska ríkið vinnur að endurskipulagningu skulda þjóðarbúsins. Gangi þjóðin af skilyrðum evruríkjanna, verða Grikkir að framselja yfirráð sín yfir ríkiseignum að andvirði 50 milljarða evra sem tryggingu fyrir neyðarláninu og að ráðist verði í einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Hvorug leiðin naut samhljóma stuðnings leiðtoga evrusvæðisins.
Skilyrðin fyrir neyðarláninu eru mun strangari en kröfuhafar Grikklands hafa áður farið fram á á síðastliðnum fimm árum. Samkvæmt heimildum Guardian má rekja hina auknu hörku til þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem grísk stjórnvöld efndu til með litlum fyrirvara á dögunum, sem hleypti illu blóði í viðsemjendurna.
„Honum var sagt að hann myndi fá betri samning ef já kæmi upp úr kössunum, og að nei myndi þyngja samningagerðina verulega,“ segir heimildamaður The Guardian.
Ríkissjóður Grikklands skuldar 320 milljarða evra, eða 177 prósent af þjóðarframleiðslu landsins, þrátt fyrir að hafa þegar fengið um 240 milljarða evra í neyðarlán á undanförnum árum. Þjóðarframleiðsla Grikklands hefur fallið um 25 prósent frá árinu 2010, og atvinnuleysi í landinu mælist nú 26 prósent.