Ríkissjóður Grikklands hefur ekki efni á að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) 1,6 milljarða evra, sem eru á eindaga 5. júní næstkomandi. Þetta hefur fréttastofan Reuters eftir Nikos Voutsis, innanríkisráðherra Grikklands.
Innanríkisráðherrann segir að til þess að af greiðslunni geti orðið þurfi Grikkland fyrst að ná samningum við lánardrottna sína, þá helst AGS og Evrópusambandið. Ummæli ráðherrans þykja gefa sterklega til kynna að við Grikkjum blasi þjóðargjaldþrot beri samningaviðræðurnar ekki árangur.
Frekari fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu er háð þeim skilyrðum að Grikkir standi í skilum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Um 7,8 milljarða evra neyðarlán frá Evrópusambandinu er að ræða, sem stjórnvöld þurfa nauðsynlega til að afstýra þjóðargjaldþroti.
Um endurgreiðsluna til AGS segir innanríkisráðherra Grikklands, í samtali við Reuters: „Við munum ekki borga hana, því peningurinn er ekki til.“ Aðspurður um afleiðingarnar ef Grikkir ná ekki að standa við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðnum svaraði ráðherrann: „Við erum ekki að sækjast eftir þessari stöðu, við viljum þetta ekki, þetta er ekki með ráðum gert. Við þurfum bara að vera raunsæ.“
Innanríkisráðherra kveðst þó vera hóflega bjartsýnn á að lausn sé í sjónmáli. „Við erum í samræðum við lánardrottna okkar og erum enn bjartsýn á að þær beri árangur, svo þjóðin nái andanum. Við veðjum á að það verði niðurstaðan,“ segir Nokos Voutsis, innanríkisráðherra Grikklands, í samtali við fréttastofu Reuters.