Umbótaáætlun grískra stjórnvalda verður send til Brussel fyrir lok dagsins í dag, líkt og samið var um í samkomulagi Grikklands við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á föstudagskvöld. Hún hefur ekki enn verið send þrátt fyrir sögusagnir um annað, og hún hefur ekki verið gerð opinber þrátt fyrir að upplýsingar hafi lekið út um innihaldið. Samþykkt þessarar áætlunar er forsenda þess að samkomulagið haldi næstu fjóra mánuðina og Grikkir fái áfram aðstoð og forðist gjaldþrot.
Grikkir hyggjast afla fjár með því meðal annars að ráðast til atlögu gegn spillingu og skattsvikum í landinu, samkvæmt þeim upplýsingum sem hafa lekið út um áætlunina. Búist er við því að hægt verði að fá 2,5 milljarða evra vegna ógreiddra skatta auðjöfra, aðra 2,5 milljarða evra vegna ógreiddra skatta einstaklinga og fyrirtækja og 2,3 milljarða evra með því að ráðast gegn ólöglegu smygli á bensíni og sígarettum, samkvæmt heimildum þýska blaðsins Bild.
@YanniKouts @tagesschau Our reform list is almost ready. But rumours that we have dispatched it already to the Commission are false.
— Yanis Varoufakis (@yanisvaroufakis) February 22, 2015
Auglýsing
Lánadrottnar Grikkja þurfa að samþykkja áætlun þeirra til þess að Grikkir fái þá 7,2 milljarða evra í fjárhagsaðstoð sem um var samið. Rætt verður um áætlunina á símafundi á morgun. Öll þjóðþing þeirra átján ríkja sem mynda evrusvæðið með Grikkjum þurfa að samþykkja samkomulagið til þess að það taki gildi. Ef ekki tekst að ganga frá framhaldi aðstoðar við Grikki gætu þeir orðið uppiskroppa með fé í mars, en þeir eiga að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,5 milljarð evra í næsta mánuði.
Vandræði heima fyrir
Flestir stjórnmálaskýrendur virðast sammála um að Grikkir hafi gefið verulega eftir í samningaviðræðunum, og á endanum samþykkt næstum því allar sömu aðhaldsaðgerðir og fyrirrennarar þeirra gerðu. Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schaeuble, orðaði það sem svo að Alexis Tsipras forsætisráðherra myndi eiga erfitt með að útskýra og réttlæta samkomulagið fyrir Grikkjum. Stjórnvöld í Grikklandi höfðu jú sagt að þau myndu segja skilið við aðhaldsaðgerðir og við hina hötuðu troiku, þrenninguna Evrópusambandið, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í nýja samkomulaginu eru þessar þrjár stofnanir enn, þær heita bara stofnanirnar þrjár en ekki troika.
Meðlimir stjórnarflokksins Syriza voru nokkuð þögulir um helgina en svo virðist sem óánægjan sé að koma upp á yfirborðið, að sögn Guardian. Meðal þeirra sem hafa tjáð sig í dag er Costas Lapavitsas, þingmaður Syriza og hagfræðiprófessor. Hann sagði að þeir þingmenn sem voru kosnir á grundvelli loforða flokksins og þeir sem telji loforðin vera skuldbindandi gagnvart grísku þjóðinni séu mjög áhyggjufullir. Það sé skylda þeirra að láta af því vita.
Manolis Glezos, gamalreyndur og virtur vinstri maður og Evrópuþingmaður fyrir Syriza, var einn sá fyrsti til að gagnrýna stjórnvöld fyrir samkomulagið. „Ég bið grísku þjóðina að fyrirgefa mér fyrir að hafa átt þátt í þessari blekkingu,“ sagði hann í grein um helgina. „Sumir segja að til þess að ná samkomulagi verði að gefa eftir. Fyrir það fyrsta: það er aldrei hægt að ná fram málamiðlunum milli kúgara og þess kúgaða. Milli þrælsins og hernámsmannsins er eina lausnin frelsi.“
"Enginn áróður eða hringsnúningur felur þá einföldu staðreynd að þeir lugu að borgurum og seldu blekkingar,“ sagði svo leiðtogi sósíalistaflokksins PASOK, Evangelos Venizelos. Hann var í síðustu ríkisstjórn landsins sem varaforsætisráðherra.