Grikkir þurfa að hafa varaáætlun ef ekki tekst að semja við Evrópusambandið og þeir gætu leitað til Bandaríkjanna, Rússlands og Kína. „Það sem við viljum er samkomulag,“ sagði Panos Kammenos, varnarmálaráðherra Grikklands í viðtali við grísku sjónvarpsstöðina Mega TV í morgun, en BBC greinir frá.
„En ef það verður ekkert samkomulag og við sjáum að Þýskaland verður áfram stíft og vill splundra Evrópu, þá er það skylda okkar að hafa plan B. Plan B er að fá fjármagn annars staðar frá. Það gætu verið Bandaríkin í besta falli, það gæti verið Rússland, það gæti verið Kína eða önnur ríki.“
Með áætlun tilbúna fyrir fund evruhópsins
Grísk stjórnvöld munu leggja fimm tillögur fram á fundi evruhópsins á morgun, samkvæmt grískum fjölmiðlum. Þetta er haft eftir heimildarmönnum innan gríska fjármálaráðuneytisins.
Fundur evruhópsins á morgun er sérstakur neyðarfundur þar sem málefni Grikklands verða rædd. Markmið Grikkja er að ná samkomulagi fyrir næsta fund evruhópsins sem verður strax eftir helgina, þann 16. febrúar. Evruhópurinn samanstendur af fjármálaráðherrum evruríkjanna. Samkomulaginu er ætlað að gefa grísku ríkisstjórninni frest fram yfir sumarið til að ná fram varanlegri samningum. Ríkisstjórnin er sögð ætla að leggja til samkomulag sem á að gilda frá því að núverandi samningar við ESB og AGS renna út, í lok febrúar, og fram í lok ágúst.
Meðal annarra atriða sem lögð verða fyrir evruhópinn er að skipt verði út 30 atriða umbótaplaggi sem hefur verið mikið gagnrýnt í Grikklandi. Í staðinn verði ráðist í tíu umbætur í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD). Þá vilja Grikkir breyta hlutfalli tekjuafgangs í fjárlögum. Nú er gert ráð fyrir því að tekjuafgangur ríkisins þurfi að vera þrjú prósent af vergri landsframleiðslu. Þetta telja stjórnvöld ekki raunhæft og vilja að hlutfallið verði lækkað í 1,5 prósent.
Þá vilja stjórnvöld hefja samningaviðræður um endurfjármögnun á skuldum ríkisins með hagvaxtartengdu skuldabréfi, eins og fjármálaráðherrann hefur talað fyrir. Lokaatriðið á lista stjórnvalda er að tafarlaust verði ráðist gegn félagslegum vandamálum eins og fátækt.