Gríska þingið mun kjósa á ný um umbætur tengdar við neyðarlánaveitingar frá lánardrottnum þeirra í kvöld. Þetta er í annað skiptið á einni viku sem greidd eru atkvæði um mál tengd samkomulaginu sem náðist við evruríkin fyrr í mánuðinum. Þetta er síðasta hindrunin í vegi fyrir því að hefja viðræður um áframhaldandi neyðarlán.
Talið er líklegt að Alexis Tsipras forsætisráðherra komi seinni skammti tillagnanna í gegnum þingið í kvöld, en umræður um málin fara fram í dag. Atkvæðagreiðslan í kvöld verður mikilvæg fyrir Tsipras, sem hefur rekið úr ríkisstjórn sinni þá ráðherra sem greiddu atkvæði gegn honum fyrir viku síðan. Tæplega fjörutíu þingmenn Syriza, flokkabandalagsins sem Tsipras fer fyrir, greiddu atkvæði gegn umbótunum þá, en Guardian greinir frá því að stjórnvöld vonist til þess að sex þeirra hafi nú skipt um skoðun.
Breytingarnar sem stjórnvöld vonast til að verði samþykktar í kvöld fjalla meðal annars um umbætur á dómskerfinu, sem eiga að gera það hraðvirkara og ódýrara, og umbætur á bankareglugerðum. Bankareglugerð ESB sem á að tryggja að lánardrottnar og hluthafar beri kostnaðinn af falli banka frekar en skattgreiðendur var samþykkt eftir kreppu en Grikkland var eitt 12 Evrópusambandsríkja sem kom reglugerðinni ekki inn í landslög fyrir tilsettan frest.
Ef gríska þingið samþykkir þessar breytingar í kvöld munu fulltrúar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabanka Evrópu mæta til Aþenu strax á föstudag til að hefja viðræður um neyðarlán.